Mikil fjölgun nýnema í ME
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 25. jún 2025 16:07 • Uppfært 25. jún 2025 16:07
Rúmlega 100 nýnemar hafa fengið skólavist í Menntaskólanum á Egilsstöðum (ME) á næsta skólaári. Á sama tíma fækkar nýnemum í Verkmenntaskóla Austurlands (VA). Lítið er um að nemendur af öðrum svæðum sæki austur þrátt fyrir mikla samkeppni um skólapláss í vinsælustu framhaldsskólunum.
Árgangurinn sem útskrifast úr grunnskólum landsins hefur verið sagður sá stærsti í Íslandssögunni en í ár sóttu 5.231 nýnemi um innritun í framhaldsskóla, 554 fleiri en í fyrra.
Útskriftarárgangurinn á Austurlandi var stærri en síðustu ár þótt ekki sé um metár að ræða. Þetta birtist frekar í innritun í ME. Árni Ólason segir búið að staðfesta innritun 105 nýnema en þeir hafi verið 70-80 á ári síðustu ár. Nokkrir einstaklingar úr þessum hópi eru þó ekki að koma úr tíunda bekk, heldur til dæmis úr öðrum skólum og teljast því nýnemar við ME.
Fjölgar hratt á heimavist ME
Nýnemarnir verða því nærri jafn margir og þeir eldri, en alls hafa 228 nemendur innritast fyrir næsta skólaár. Það eru um 30 fleiri en á síðasta ári. Mikil aukning er á heimavist, 105 sóttu um að búa þar samanborið við 80 í fyrra og um 50 fyrir fjórum árum.
„Við erum mjög ánægð með aðsóknina, þótt það séu eiginlega of margir á heimavistinni til að hægt sé að verða við óskum allra, sem til dæmis vilja vera sér í herbergi. Þetta er mesti fjöldi á henni í að minnsta kosti tíu ár þannig það verður líflegt á henni.“
Árni segir gott orðspor af kröftugu félagslífi á vistinni geta átt sinn þátt í aðsókninni að skólanum. Hann kann annars engar sérstakar skýringar á henni heldur bendir á að sveiflur séu innbyrðis á milli skólanna á Austurlandi. Síðustu ár hafi til dæmis VA notið vinsælda meðan frekar hafi dregið úr aðsókninni að ME.
Lítið um nemendur úr öðrum landshlutum
Aðspurður um hvort hin mikla ásókn í skólana á höfuðborgarsvæðinu hafi orðið til þess að börn þaðan, eða annars staðar, leiti í ME, segir hann það ekki merkjanlegt. Á næsta ári sé von á 5-6 börnum úr öðrum landshlutum, sem sé aðeins fleiri en áður. Oftast eigi þau börn bakland á Austurlandi.
Hann hafi heldur ekki orðið var við að nemendur séu að koma í ME eftir að hafa verið hafnað um skólavist annars staðar. Helsta breytingin í ár sé að nokkur hópur frá Hornafirði hafi sótt um, sem sé sjaldgæft. Samkvæmt reglum njóta nemendur úr 10. bekk forgangs að plássi og allir forgangsnemendur fengu inni í ME.
VA hefði getað tekið við fleirum
Aðsókn að VA er á móti heldur minni en síðustu ár. „Það er ekkert leyndarmál að ég hefði viljað fá fleiri nemendur. Heildaraðsóknin er fín en nýnemar eru færri en í fyrra sem er áhyggjuefni í stórum árgangi,“ segir Birgir Jónsson, skólameistari.
Hann segir enga nemendur vera að koma úr öðrum landshlutum í skólann. „Það er talað um að það vanti pláss í verkmenntaskólum. Hjá okkur er pláss í flestum deildum og á heimavistinni.“ Aðspurður svarar Birgir að fækkunin sé ekki slík að ekki verði hægt að kenna námsbrautir sem áformaðar voru.
Um skýringar veltir hann upp þeim möguleika að meiri ásókn sé meðal Austfirðinga að fara norður til Akureyrar en síðustu ár. Árni segist einnig finna fyrir nokkrum áhuga á því, einkum meðal nemenda frá Egilsstöðum sem vilji komast í heimavist. „Ég held að við fáum hlutfallslega fleiri úr tíunda bekk á til dæmis Eskifirði en Egilsstöðum,“ segir hann.