Mikil fjölgun slysa á Austurlandi
Ellefu einstaklingar slösuðust í fjórum umferðarslysum sem lögregla hafði fregnir af í liðnum marsmánuði. Skráð slys í fjórðungnum það sem af er ári eru tólf talsins en voru aðeins fimm á sama tímabili fyrir ári.
Um bráðabirgðatölur er að ræða en góðu heilli reyndust slysin ekki alvarleg samkvæmt bókum lögreglu í umdæminu. Í flestum tilfellum voru slysin tengd slæmri færð og akstur ekki í samræmi við aðstæður í einhverjum tilvikum.
Versta atvikið átti sér stað á Nesgötu í Norðfirði þegar ökumaður missti stjórn á bifreið sinni í aflíðandi brekku í hálku og krapa og lenti framan á bifreið sem kom úr gagnstæðri átt. Áreksturinn var harður og þurftu sex einstaklingar að leita sér læknis vegna þessa eina atviks.
Eitt slys til varð á Austurvegi á Reyðarfirði þar sem tveir þurftu á læknisaðstoð að halda og einn var fluttur til læknis eftir að hafa misst stjórn á bíl sínum í Bleiksárhlíð á Eskifirði. Þar slasaðist ökumaður snjóruðningsbifreiðar þegar bifreiðin valt í norðanverðum Álftafirði.