Skip to main content

Mikil hækkun á fasteignamati fjölbýlis

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. maí 2025 11:45Uppfært 03. jún 2025 13:13

Fasteignamat í fjölbýli hækkar á flestum stöðum á Austurlandi um meira en 10% fyrir árið 2026. Hækkun í sérbýli er mest á Borgarfirði og Stöðvarfirði.


Þetta má lesa út úr fasteignamati næsta árs sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) kynnti á miðvikudag.

Á Stöðvarfirði hækkar fasteignamat í sérbýli um 22,9%. Á móti vekur athygli að fasteignamat í fjölbýli þar breytist ekkert. Væntanlega skýrist það af fáum, jafnvel engum, viðskiptum undanfarið ár með fasteignir þar. Á Borgarfirði hækkar sérbýlið um 17% og litlu minna á Djúpavogi og Breiðdalsvík.

Fasteignamat í fjölbýli hækkar í öllum þéttbýliskjörnum, nema á Fáskrúðsfirði, um meira en 10%. Mest er hækkunin á Reyðarfirði, tæp 20% en þar á eftir koma Egilsstaðir og Fellabær. Á móti hækkar fasteignamat í sérbýli á þessum stöðum tiltölulega lítið.

Í dreifbýli á Austurlandi, sem í skilgreiningu HMS er norðurhluti svæðisins því Austfirðir dreifbýli er annað matssvæði, lækkar fasteignamat í sérbýli um tæp 2%.

Hækkun á Austurlandi undir landsmeðaltali


Almennt hækkar matið á Austurlandi um 8,3%. Hækkanir á Austurlandi, Vestfjörðum og höfuðborgarsvæðinu eru lægri en í öðrum landshlutum en meðalhækkunin er 9,2%. Samkvæmt samantekt HMS eru hækkanir á Suðurnesjum og í kringum Akureyri mest áberandi.

Fasteignaverðmæti hækkaði umfram vísitölu í fyrra. Í fyrsta sinn frá árinu 2007 er heildarfasteignamat hærra en brunabótamat.

Atvinnueignir á landsbyggðinni hækka meira en á höfuðborgarsvæðinu, eða um 9,1% á móti 3,8%. HMS stefnir á að endurskoða aðferðir sínar við útreikning mats atvinnueigna fyrir næsta mat að ári, en síðasta stóra endurskoðun var gerð árið 2014.