Skip to main content

Mikil óánægja með sorphirðumál á Fljótsdalshéraði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. apr 2022 12:21Uppfært 26. apr 2022 14:39

Fögru lofað árum saman en ekki staðið við. Lítið tillit tekið til vaxandi notkunar endurvinnslutunna. Komið við á bæjum en sorp ekki tekið því lítið er í tunnum. Endurvinnslutunnur fást ekki og enginn starfsmaður á lausu í afleysingar.

Ofangreint er meðal þess sem gagnrýnt er á fésbókarvefnum Íbúar Fljótsdalshéraðs en víða í sveitum héraðsins þykja sorphirðumál hafa versnað mikið frá því sem áður var. Það var til að mynda eitt helsta umræðuefnið á sérstökum íbúafundi heimastjórnar Fljótsdalshéraðs að Brúarási í gærkvöldi.

Plastið safnast fyrir

Fjölmargir leggja orð í belg vegna þessa á spjallþráðnum og virðast kvartanirnar af ýmsum mismunandi toga. Aðalsteinn Sigurðarson á Vaðbrekku er einn þeirra.

„Það er ekki í lagi að maður þurfi að kvarta bæði í þjónustuaðilann og sveitarfélagið nánast árlega út af þessu sama aftur og aftur. Sérstaklega er vandamál með plastruslið sem safnast fljótt fyrir og fyllir alla geymslukima. Svo lofa menn að koma á tilteknum tíma en komast ekki, lofa þá aftur að koma örlítið síðar og það stenst ekki heldur. Þetta lengi verið slæmt en virðist bara versna með tímanum.“

Engar afleysingar?

Sigurlaug Jónína Ólöf Þorsteinsdóttir á Torfastöðum gagnrýnir að svo virðist sem öll sorphirða falli niður á meðan eini starfsmaðurinn sem ruslið sækir fer erlendis í frí.

„Það aftur riðlar öllu þessu fína kerfi sem á að vera á sorphirðu í sveitunum. Auðvitað er enginn að segja að það megi búast við sorphirðubílnum þegar brjálað veður er utandyra en það er bara mun oftar sem sorphirða fellur niður en þegar veður og vindar blása. Sérstaklega er þetta bagalegt fyrir barnafólk því ekki geymir maður notaðar bleyjur og slíkt í sorptunnum vikum saman.“

Endurvinnsla stóraukist

Sigvaldi H. Ragnarsson á Hákonarstöðum telur að bæta þurfi kerfið allt því það hafi dálítið gleymst að langflestir íbúar noti endurvinnslutunnu mun meira nú en áður fyrr.

„Ég gæti trúað að velflestir, ef ekki allir, íbúar í sveitunum séu vel meðvitaðir um nauðsyn þess að endurvinna hlutina sé þess nokkur kostur. Endurvinnslutunnan er því oft orðin full löngu áður en tunnan fyrir almennt sorp og mér sýnist þjónustuaðilinn ekki hafa tilfinningu fyrir þessari stöðu. Kerfinu þarf að breyta og bæta um leið.

Engin viðbrögð

Austurfrétt óskaði tals af forstjóra Íslenska gámafélagsins, sem hefur með sorphirðu á Fljótsdalshéraði að gera, vegna þessa en án árangurs. Þó virðist ljóst að einhverjir yfirmenn fyrirtækisins séu meðvitaðir um kvartanirnar því tveir aðilar sem Austurfrétt ræddi við sögðu að fyrirtækið hefði fljótlega haft samband eftir að kvartanirnar birtust á Facebook og lofuðu bót á hlutunum strax í vikunni.

Ekki náðist í formann heimastjórnar Fljótsdalshéraðs, Vilhjálm Jónsson, í morgun þrátt fyrir nokkrar tilraunir. Á íbúafundi heimastjórnarinnar kom þó fram fullur vilji heimastjórnarmanna til að koma sorphirðumálum í betra horf.