Mikil úrkoma og vatnavextir á Fáskrúðsfirði

Það var óhemju mikil rigning í gær á Fáskrúðsfirði og uppsöfnuð sólarhringsúrkoma nær 140 millimetrar samkvæmt upplýsingum Veðurstofu.  Ekki eru fréttir af verulegum skemmdum, þó grafið hafi frá einhverjum ræsum.

budalaekurinn.jpgAð sögn Trausta Jínssonar veðurfræðings á Veðurstofu Íslands eru úrkomumælingar tiltölulega nýlega hafnar á Fáskrúðsfirði og meðaltöl því ekki til. Auk þess hefur leiðinleg og viðvarandi bilun háð mælingunum. Mælirinn á Fáskrúðsfirði tekur stundum upp á því að senda frá sér upplýsingar um úrkomu upp á sirka 1 millimeter á klukkustund heilu sólarhringana og það þótt þurrt sé. Ekki hefur tekist að finna ástæðuna. Trausti veit þó ekki til þess að bilunin hafi verið áberandi nú upp á síðkastið og mælingarnar síðustu daga því trúlega réttar.

Samkvæmt upplýsingum frá Trausta var meðalúrkoma 1971 til 2000 í júlí á Norðfirði 82 millimetrar og 100 millimetrar á Dalatanga. 

Sé miðað við frá kl. 0 til 24 hefur úrkoman á Fáskrúðsfirði í þessum mánuði farið upp í, 74 millimetra 1. júlí og 93 millimetra þann 3. júlí miðað við tæpa 140 millimetra í gær 7. Júlí og 22 millimetrar hafa fallið frá næstliðnu miðnætti.

Frá 1. til og með 7. júlí féllu alls 327 millimetrar af úrkomu á Fáskrúðsfirði á sama tíma féllu 268 millimetrar á Eskifirði og 229 millimetrar á Norðfirði, á öðrum sjálfvirkum stöðvum minna.
Ámóta mikil úrkoma hefur fallið á Hánefsstöðum við Seyðisfjörð og í Gilsá í Breiðdal, en þó ekki eins mikið og á Fáskrúðsfirði.

,,Þetta er allt óvenju mikil úrkoma. Mesta úrkoma í júlímánuði öllum, mældist í Vík í Mýrdal í júlí 1950, 525 millimetrar. Talsvert borð er því fyrir báru varðandi met, en þó er ekki liðinn nema fjórði hluti mánaðarins.
Mesta sólarhringsúrkoma sem vitað er um í júlí mældist á Hánefsstöðum við Seyðisfjörð þann 4. júlí 2005, það voru rúmlega 201 millimeter", sagði Trausti Jónsson veðurfræðingur.

Myndir á fréttavefnum Fáskrúðsfjörður.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.