Mikil samstaða með Krabbameinsfélaginu á Styrkleikunum
Töluverður fjöldi fólks hefur þegar skráð sig til leiks í fyrstu Styrktarleikana sem haldnir verða á Austurlandi um komandi helgi. Þar labba mismunandi hópar boðhlaup í heilan sólarhring til styrkar Krabbameinsfélagi Íslands.
Styrkleikarnir verða haldnir á Vilhjálmsvelli á Egilsstöðum um helgina en það mun vera þriðja skiptið sem slíkir leikar verða haldnir hérlendis. Fyrirmynd þeirra kemur erlendis frá en snýst í grunninn um að fólk komi saman í liðakeppni í boðhlaupi sem stendur í heilan sólarhring. Keppendur geta valið um hvort þeira hlaupa eða ganga en allir geta heitið á liðin og þau áheit renna beint til styrktar Krabbameinsfélagi Íslands.
Segja má að Styrkleikarnir séu tvískiptir. Annars vegar boðhlaupið þar sem hlaupið eða gengið er látlaust frá hádegi á laugardegi til hádegis á sunnudegi en hins vegar sérstök fyrir heiðursgestina sem eru allir þeir sem hafa þjáðst eða þjást af krabbameini af einhverju tagi. Fyrir þá, sem og alla aðra gesti, er ýmislegt skemmtilegt í boði á meðan boðhlaupssveitirnar hlaupa af miklum móð að sögn Hrefnu Eyþórsdóttur, framkvæmdastjóra Krabbameinsfélags Austfjarða.
„Það eru komin ein tíu lið sem ætla að taka þátt á þessari stundu og vonandi fjölgar þeim enn meira. Þess utan er svona eitt svokallað Landslið sem er ætlað þeim sem langar að hlaupa en kannski eru ekki í neinum sérstökum liðum. Það þarf bara einn einstaklingur úr hverju liði að vera á ferðinni hverju sinni þennan sólarhring og á að minna á að krabbamein tekur sér enga hvíld fyrir þá sem af þjást. Þetta er svona tækifæri fyrir fyrirtæki, ættingja og aðra að sýna samstöðu með þeim sem glíma við þennan sjúkdóm.“
Það kostar ekkert að vera með að sögn Hrefnu og hægt að heita á liðin eins litlu eða miklu og fólk kýs. Nóg er við að hafa fyrir þá sem vilja koma og fylgjast með.
„Það verður flott dagskrá á Vilhjálmsvelli frá 14 á laugardeginum og fram undir kvöld. Þar verða ýmsir viðburðir í gangi eins og tónlistaratriði, hagyrðingar, súmba og þar verður jafnframt sölutjald og allur ágóði af sölunni þar rennur líka til Krabbameinsfélagsins. Þarna verður rjóminn af hæfileikafólkinu á Héraði.“
Enn er hægt að skrá sig í boðhlaupið og veita málefninu lið en það er gert hér á þessum vef.
Frá lokahátíð Styrktarleikanna sem fram fóru á Selfossi á síðasta ári. Þar tókst allt með ágætum og góð fjárhæð safnaðist til góðra verka. Mynd Krabbameinsfélagið.