Mikill samhljómur milli Framsóknar og Fjarðalista
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 23. maí 2022 11:43 • Uppfært 23. maí 2022 11:44
Lítið ber á milli í viðræðum Fjarðalista og Framsóknarflokks um myndun meirihluta í bæjarstjórn Fjarðabyggðar. Fulltrúar framboðanna hittust í gær og halda áfram í byrjun vikunnar.
„Við hittumst í gær og höldum áfram í þessari viku. Við eigum fund í kvöld eða á morgun með Framsókn þar sem við förum yfir þessi helstu mál um hvort við náum ekki saman.
Það er óskandi að við náum að klára þetta fyrri hluta vikunnar. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu,“ segir Stefán Þór Eysteinsson, oddviti Fjarðalistans.
„Viðræðurnar ganga ágætlega og mjakast í rétta átt. Það er ekki mikið sem ber í milli, það er mikill samhljómur milli okkar.
Við erum að vinna í meirihlutasáttmálanum og berum hann undir okkar fólk. Hann kemur ágætlega út. Við eigum eftir að klára nokkur mál en ekkert stórvægilegt. Þetta eru meira litlu hlutirnir sem við erum að spá í.“