„Mikilvægasta björgunarsveitin er alltaf sú sem er næst“

Borghildur Fjóla Kristjánsdóttir, formaður Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og félagi í Gerpi í Neskaupstað, segir að skoða verði skipulag almannavarna hérlendis til frambúðar til að létta álagi af sjálfboðaliðum. Eins verði að huga að getu þeirra til að sinna mismunandi verkefnum um allt land.

„Þetta er ný staða fyrir alla í almannavarnakerfinu,“ segir Borghildur Fjóla um það álag sem skapast hefur vegna eldgosanna við Grindavík. Félagar úr björgunarsveitum, meðal annars frá Austfjörðum, stóðu vaktina þar linnulítið mánuðum saman.

Borghildur Fjóla útskýrir að íslenska almannavarnakerfið sé almennt útbúið til að takast á við viðburði sem ganga hratt yfir, en ekki í fjóra mánuði eins og reyndin er í Grindavík, eða jafnvel lengur ef út í það að farið.

„Innan Slysavarnafélagsins Landsbjargar eru um 4.500 manns á útkallsskrá sem geta brugðist við þegar stórir atburðir verða og almannavarnaástand. Við erum með skilgreint hlutverk í lögum um að taka þátt í leit, björgun og þegar svona kemur upp.

Til að geta gert þetta þurfum við velvild samfélagsins, fjölskyldna okkar og vinnuveitenda, til að losa okkur undan okkar daglegu verkefnum svo við getum sinnt þessum verkefnum. Síðan klárast þau og við snúum aftur til baka. Þannig hefur þetta verið og skipulag okkar er unnið út frá þessu.

En þegar almannavarnaástand varir í marga mánuði er hætta á að þol vinnuveitanda eða fjölskyldu björgunarsveitarfólks sé farið að minnka. Þetta snýst ekki um að séum þreytt, við erum flest í þessu af lífi og sjálf og viljum helst vera í atinu, en á meðan bíður allt hitt.

Við þessu þarf að bregðast og til þess þarf aðkomu stjórnvalda. Ein leið væri að Almannavarnir ráði tímabundið aðila til að sinna verkefnum sem ekki þarf þjálfað björgunarsveitafólk í. Sem dæmi hafa öryggisfyrirtæki verið fengin til að sinna lokunarpóstum eða bílastæðavörslu.

Önnur verkefni krefjast góðrar þjálfunar en það er ekki æskilegt að gera slíka samninga undir hatti Landsbjargar því samtökin eru jú sjálfboðaliðasamtök. Þess vegna þarf að vera eitthvað í almannavarnakerfinu sem tekur boltann þegar ekki er hægt að ætlast til að sjálfboðaliðinn haldi honum lengur.“

Verður að vera plan til staðar


Hugsanlega væri hægt að styrkja einhverjar af þeim stofnunum sem fyrir eru á sviði almannaöryggis til þess að gegna þessu hlutverki. En Borghildur Fjóla bendir á að 400.000 manna þjóð verði að sníða sér stakk eftir vexti.

„Hvað höfum við sem samfélag bolmagn til að gera? Við getum ímyndað okkur hvað það myndi kosta ef við ætluðum að vera með 450 manna her alltaf reiðubúinn ef eitthvað kæmi upp á. Það yrði erfitt að rökstyðja kostnaðinn af honum þar sem þetta eru í raun alltaf skammtímaviðburðir.

Björgunarsveitir verða alltaf til staðar til að sinna verkefnum en við erum í raun að kalla eftir því að það sé plan um hvað taki við þegar verkefni eins og þetta, stendur yfir vikum og mánuðum saman. Að búið sé að ræða við landverði eða ráða land- eða öryggisverði þegar viðburðurinn er orðinn stærri en að sjálfboðaliðar geti sinnt með góðu móti.“

Hvað ef gysi í Kröflu?


Í kringum fyrstu eldgosin á Reykjanesi fólust verkefni björgunarsveitanna í að huga að heilsu og öryggi þess mannfjölda sem vildi ganga að gosstöðvunum. Hægara er um vik að fá sjálfboðaliða í slík verk á því landssvæði þar sem flestir landsmenn búa. Það gæti orðið snúnara ef til dæmis kæmi upp ferðamannavænt gos í Kröflu.

„Það er rétt og það verður að hugsa um hvernig eigi að bregðast við ef þetta gerist á svæði þar sem við höfum mun færri einstaklinga til að sinna þessum verkefnum. Þarna verða stjórnvöld að hafa plan um hvað gerist þegar ekki er lengur hægt að ætlast til að sjálfboðaliðar sinni vinnunni. Það er örugglega margt hægt að gera en þarna þurfum við að hugsa út fyrir kassann því skipulagið sem við höfum treyst á, og hefur gengið vel í fjölda ára, er aðeins farið að riðlast.“

Skiptir máli að hafa sveitir um allt land


Aðspurð um hvernig björgunarsveitunum gangi að fá sjálfboðaliða til starfa svarar Borghildur Fjóla að það sé misjafnt eftir svæðum og tímabilum. Vissulega geti oft verið erfitt á landsbyggðinni þar sem unglingarnir flytji burt í framhaldsnám og skili sér ekki endilega aftur inn í starfið, þótt þau flytji aftur heim. Það sjáist þó líka í stærri sveitunum. „Ég er þó bjartsýn, það er alltaf endurnýjun og mér finnst hún ekki vera á neinni niðurleið.“

Um möguleikann á að björgunarsveitir sameinist til að styrkjast segir hún að það sé ekki í höndum stjórnar Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Félagið er regnhlífarsamtök meðan hver sveit er sjálfstæð eining. Þótt landsstjórnin gæti stefnt að sameiningu þá sé það ekki gert. „Við höfum frekar verið að styðja við minni og brothættari sveitirnar. Það skiptir máli að þær séu til staðar, þótt við séum fámenn. Mikilvægasta björgunarsveitin er alltaf sú sem er næst vettvangi.“

Sala á flugeldum fyrir áramótin hefur í gegnum tíðina verið helsta tekjulind björgunarsveitanna. Framtíð hennar er óviss, fyrir nokkrum árum benti Orkustofnun á að kolefnislosun flugelda hérlendis á gamlárskvöldi væri jafn mikil og bílaflotans á heilu ári.

Borghildur Fjóla segir tekjur sveitanna af sölunni hafa haldist stöðugar síðustu ár, þær séu ekki að aukast. Alltaf séu einhverjir sem vilji frekar styrkja sveitirnar eftir öðrum leiðum. „Flugeldasalan er okkar stærsta einstaka fjármögnun þannig að það er stór áskorun að finna eitthvað sem kæmi í stað hennar, sérstaklega vegna þess að hver og ein sveit er með sína sölu.“

Munar mikið um nýju björgunarskipin


Stærsta einstaka fjáröflunarverkefni Landsbjargar snýr að endurnýjun 13 björgunarskipa hringinn um landið. Árið 2021 var samið við ríkið um að fjármagna fyrstu þrjú skipin til hálfs og eru þau komin, að miklu leyti með stuðningi tryggingafélagsins Sjóvár. Vorið 2023 skrifaði ríkið undir samkomulag um að taka þátt í að kosta næstu fimm skip. Samkvæmt upphaflegri áætlun ætti eitt þeirra að koma til Vopnafjarðar en ýmsir þættir geta haft áhrif á endanlega röð.

Landsbjörg þarf að fjármagna helming á móti. Enn sem komið er er því ekki lokið, smíði fjórða skipsins er þó langt komin en beðið er með það næsta.. „Það eru bæði Landsbjörg sem fjármagnar þetta en síðan kemur líka fjármagn frá heimasveitinni. Því miður hefur þetta ekki gengið eins vel og við vildum en við erum enn vongóð. Við höfum ekki afpantað neitt skip en heldur ekki enn byrjað á því næsta.“

Borghildur Fjóla segir um gríðarlegar framfarir að ræða því eldri skipin eru mörg hver orðin um 40 ára gömul. „Þetta skiptir miklu máli fyrir öryggi sjófarenda við landið. Við höfum séð hvað björgunargeta þessara nýju skipa er miklu meiri. Þau komast lengra og hraðar auk þess sem aðbúnaðurinn um borð er miklu betri. Þau geta líka tekið mun stærri skip í tog. Þið getið ímyndað ykkur hvernig það er að uppfæra 40 ára gamlan bíl í nýjan. Það þarf talsvert að klappa þeim gömlu til að þau séu útkallshæf.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.