Mikilvægt að rætist úr ferðamannasumrinu

Hagtölur gefa vísbendingu um mikinn samdrátt í ferðamennsku á Austurlandi í byrjun sumars. Verkefnastjóri hjá Austurbrú segir stöðuna misjafna milli ferðaþjónustuaðila en erfitt geti orðið hjá mörgum ef ekki rætist úr þegar líður á.

Fréttavefurinn FF7, sem sérhæfir sig í ferðaþjónustu, birti í gær greiningu á gistinóttum á hótelum fyrir maí þar sem fram kemur að 24% fækkun hafi orðið á Austurlandi í maí samanborið við sama mánuð í fyrra.

„Við fórum að heyra frá ferðaþjónustuaðilum í apríl að það væri mikið um afbókanir. Það virtist sérstaklega eiga við um þá sem voru í miklum viðskiptum við ferðaskrifstofur. Þær eru með langan fyrirvara. Síðan höfum við heyrt frá öðrum aðilum þar sem maí kom vel út,“ segir Alda Marín Kristinsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú.

Engin ein ástæða


Hún segir erfitt að segja um hvað sé að gerast enda geti það verði misjafnt milli aðila. Rætt hefur verið um verðbólgu og verðhækkanir, bæði hérlendis og í Evrópu, hræðslu við náttúruhamfarir vegna frétta um eldgos á Reykjanesskaga, minni ferðavilja á meðan Evrópumótið í fótbolta stendur yfir og rekstrarvandræði ferðaskrifstofa. Sú þriðja stærsta, FTI, varð gjaldþrota í byrjun júní.

„Við heyrum á þeim sem við tölum við að skýringarnar eru ekki alltaf hinar sömu þannig það er ekki bara eitt atriði sem hefur þessi áhrif. Við vitum að eldgosaumræðan hefur haft áhrif, fólk hræðist að koma. Ísland hefur ekki verið jafn mikið kynnt erlendis og fyrir nokkrum árum. Það skiptir máli að við stýrum okkar skilaboðum því annars gerir það einhver annar fyrir okkur.

Ef verð eru há þá getur peningurinn klárast áður en komið er austur, eða fólk styttir ferðina sem aftur dregur úr heimsóknum á Austfirði og Vestfirði.

Okkur vantar líka ítarlegri greiningar á þessum tölum til að sjá hvort fækkunin stafi að hluta af minna framboði. Við erum með margar litlar einingar sem eru kvikar og geta ýmist flýtt eða seinkað opnun. Það kann að hafa áhrif ef einhverjir staðir hafa opnað síðar.“

Ferðaþjónustan skiptir minnstu byggðirnar miklu máli


Alda Marín segir mikilvægt að ferðamennskan glæðist þegar líður á sumarið. „Það verður forvitnilegt að sjá hvort það takist að fylla upp í götin með ferðafólki sem bókar með styttri fyrirvara. Ef það glæðist ekki úr þá er staðan slæm því ferðaþjónustan skiptir íbúa Austurlands miklu máli því það hefur orðið mikil uppbygging í tengslum við hana í minnstu byggðunum.“

Næstu dagar líta í það minnsta vel út því með veðurspá upp á 20 gráður nánast hvern einasta dag má reikna með að hratt fjölgi á tjaldsvæðunum. „Þrátt fyrir að veðrið hafi ekki verið frábært það sem af er sumri hefur verið ágætt að gera á því tjaldsvæði sem ég sé best, hér á Borgarfirði, en það er engin spurning um að fólk mun nýta veðrið næstu daga.“




Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.