Skip to main content

Mikilvægt að skoða orkuöflun til framtíðar samhliða banni við olíuleit

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. mar 2022 12:59Uppfært 02. mar 2022 13:28

Sveitarfélagið Fjarðabyggð telur mikilvægt að skoða möguleika á innlendri orkuöflun til hlítar þegar olíuleit og vinnsla í íslenskri lögsögu verði bönnuð.


Þetta kemur fram í athugasemd Fjarðabyggðar við tillögur umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um að fella úr gildi lög um leit, rannsóknir og vinnslu kolefnis. Samhliða yrði það stefna íslenska ríkisins að gefa ekki út leyfi til olíuleitar.

Þetta er í samræmi við markmið í nýjum ríkisstjórnarsáttmála um kolefnishlutleysi Íslands árið 2040. Frestur til að senda inn athugasemdir við áformin í samráðsgátt stjórnvalda rann út í byrjun vikunnar.

Austurfrétt greindi frá því í gær að í umsögn Fjarðabyggðar væri lagst gegn því að olíuleitin yrði bönnuð þar sem það væri ótímabært. Eftir að fréttin birtist kom í ljós að fyrir mistök hafði vinnsluskjali verið skilað inn í samráðsgáttina. Því skilaði sveitarfélagið inn nýju skjali í morgun.

Í því segir að Fjarðabyggð telji afar mikilvægt að um leið og olíuleit sé bönnuð verði tryggðir orkukostir til framtíðar með orkuskipti og framleiðslu á rafeldsneyti innanlands í huga. Meðan raforkuöryggi sé ekki tryggt sé samfélagið fast í að brenna olíu við framleiðslu vegna raforkuskorts.

Eins og komið hefur fram keyra bæði fiskimjölsverksmiðjur sem og fjarvarmaveitur Fjarðabyggðar á olíu um þessar mundir vegna skorts á raforku í landinu.

Í umsögn Fjarðabyggðar er rifjað upp að frá því byrjað var að ræða um olíuleit á Drekasvæðinu hafi Fjarðabyggð tekið þátt í uppbyggingu við þjónustu og leit. Olíuleitaraðilar hafi fljótt valið hafnir Fjarðabyggðar, sem og aðstöðu í Múlaþingi, sem bækistöðvar fyrir sína þjónustu. Milli sveitarfélaganna hafi verið góð samstaða og samstarf.

„Gert var ráð fyrir notkun og nýtingu hafnarmannvirkja á Reyðarfirði auk mikillar uppbyggingar við þjónustu tengt leit og rannsóknir auk olíubirgðastöðvar í Reyðarfirði. Því var um mjög mikilvægt uppbyggingarverkefni að ræða sem hefði haft í för með sér jákvæða byggðaþróun með aukinni fjárfestingu og fjölbreytni starfa, sem um leið hefði skapað byggðafestu,“ segir í umsögninni. Þar er jafnframt óskað eftir því að framvegis verði erindi um laga- og reglugerðarbreytingar vegna olíuleitar og vinnslu sendar formlega til umsagnar.

Tvær umsagnir bárust um tillögurnar. Hin umsögnin var frá Landvernd sem sagði bannið löngu tímabært og að með því sé engum hagsmunum fórnað.