Skip to main content

Mikilvægt að vakta vel áhrif hreindýraveiða við Snæfell

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. apr 2022 14:56Uppfært 20. apr 2022 12:14

Eftirlitsstofnanir telja mikilvægt að vakta vel áhrif afnáms griðasvæðis hreindýra og fugla við Snæfell á náttúru- og umhverfi. Ekki er þó talið að afnámið hafi skaðleg áhrif, nema síður sé, á hreindýrin sjálf. Náttúrufræðistofnun lagðist gegn afnámi griðlandsins.


Þetta kemur fram í umsögnum stofnanna til Vatnajökulsþjóðgarðs. Óskað var eftir þeim þegar vinna hófst við að kanna hvort rétt væri að afnema griðlandið, en hreindýraveiðimenn hafa kvartað undan því að vegna þess hafi reynst erfitt að veiða kvótann á Fljótsdalsheiði síðustu tvö ár. Innan þess hafa veiðar á fuglum einnig verið bannaðar.

Nú hyllir undir að griðlandið, sem komið var á fyrir áratug, verði afnumið. Svæðisráð Austursvæðis þjóðgarðsins samþykkti í byrjun mánaðarins tillögu að breytingu Stjórnunar- og verndaráætlunar sem auglýst verður á næstunni. Almenningi gefst í vor tækifæri á að gefa sitt álit en staðfesting á breytingunni ætti að liggja fyrir í sumar.

Aukið álag á hópa utan svæðisins skaðlegt

Náttúrustofa Austurlands vaktar hreindýrastofninn. Í umsögn hennar segir að í fyrra hafi aðeins veiðst 93% hreindýrakvótans á svæði 2, Fljótsdalsheiði samanborið við 97% annars staðar. Fyrri ár virðist þessu hafa verið öfugt farið.

Náttúrustofan bendir hins vegar á að þetta segi ekki alla söguna. Síðasta sumar hafi verið of hátt veiðiálag á hreindýrahjörðum utan griðlandsins sem sé hvorki í samræmi við dýravelferð né góðar veiðar. Þetta álag, sem verið hefur síðustu tvö ár, kunni að skýrast af griðlandinu.

Vernda gróður og gæsir

Í umsögninni segir að þar sem þjóðgarður auki aðgengi fólks að mögulega viðkvæmum svæðum sé eðlilegt að stýra ásókninni á einhvern hátt, til dæmis með að takmarka umferð sexhjóla um lengri eða skemmri tíma. Þótt griðlandið skipti ekki máli upp á stofnstærðina og geti jafnvel unnið gegn jafnri dreifingu veiðiálags, þurfi að huga að öðrum þáttum. Aukin umferð geti skemmt gróður og skotveiðin truflað heiðargæs en eitt mikilvægasta fellisvæði hennar er á Eyjabökkum. Þá er vakin athygli á að hreindýrin þurfi vernd á fleiri árstímum, einkum á burðartíma kúa og hvatt er til þess að kúm séu gefin grið meðan kálfarnir séu mjög ungir.

Náttúrufræðistofnun Íslands minnist einnig á gæsirnar og segir að eðlilegt sé að svo mikilvægt svæði njóti aukinnar verndar. Þá er svæðið eitt þeirra sem njóta verndar samkvæmt Ramsar-samkomulaginu, um verndun votlendis, hérlendis. Stofnunin telur veiðibannið eðlilegt af þeirri því veiðunum geti fylgt ónæði og rask enda landssvæðið viðkvæmt fyrir umferð og nýtingu. Af þessum orsökum sé full ástæða til að viðhalda griðlandinu.

Hreindýraráð varar á móti við því að gróður geti látið á sjá ef stórir hópar hreindýra geri sig heimakomin um lengri tíma á svæðinu. Þá geti fyrirkomulagið orðið til þess að erfitt sé að stýra veiðum frá degi til dags.

Óljósar heimildir þjóðgarðsins

Í bæði umsögn Umhverfisstofnunar og Náttúrustofu Austurlands er komið inn á þá staðreynd að mismunandi reglur gildi um veiðar á villtum dýrum og þar af leiðandi komi mismunandi stofnanir að stjórnuninni. Umhverfisstofnun telur ekki ástæðu til að þjóðgarðurinn setji sérreglur, umfram það sem fram komi í almennri stjórnunar- og verndaráætlun fyrir villt dýr hérlendis en Umhverfisstofnun vinnur að slíkri áætlun.

Lögfræðingur þjóðgarðsins bendir á að veiðigriðlandið hafi aðeins verið afmarkað í áætluninni, ekki reglugerð um þjóðgarðinn. Þetta ósamræmi hafi valdið ágreiningi og óvissu um lögmæti veiðibannsins og eftirlitsaðgerðir þjóðgarðsins sem að auki geti ekki refsað fyrir brot. Betra sé að tekið sé á veiðunum í villidýralögum.

Starfsmenn þjóðgarðsins, í samráði við fagstofnanir, hafa eftir að umsagnirnar lágu fyrir hugað að mótvægisaðgerðum. Á fundi ráðsins fyrir páska var lögð fram drög að vöktunaráætlun í kjölfar þess að griðlandið verði afnumið. Í bókun sinni lýsir ráðið yfir ánægju með vel unnin drög að vöktunaráætluninni.