Miklar áhyggjur af fækkun heilsársstarfa á Seyðisfirði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 30. sep 2025 14:41 • Uppfært 30. sep 2025 14:42
Fulltrúi í heimastjórn Seyðisfjarðar telur um 50 störf hafa tapast úr byggðarlaginu á allra síðustu árum með lokun frystihússins og nú brotthvarfi togarans Gullvers. Hann segir nauðsynlegt að ræða hvernig hægt sé að byggja upp heilsársstörf þar til frambúðar. Bæjarstjóri segir stjórnvöld þurfa að styðja við Seyðisfjörð og Austurland með innviðum.
Síldarvinnslan sagði á laugardag upp allri áhöfn Gullvers. Í henni voru um 20 einstaklingar, þar af 7 með lögheimili á Seyðisfirði. Allir hafa sex mánaða uppsagnarfrest. Hluta hópsins mun bjóðast pláss á öðrum skipum Síldarvinnslunnar.
Eitt og hálft ár er síðan starfsemi var hætt í frystihúsinu. Þar misstu um þrjátíu manns vinnuna. Þetta þýðir að samanlagt hafa um 40 Seyðfirðingar misst vinnuna við þessar breytingar. Þá eru ótalin störf, svo sem við viðhald, löndun eða tekjur af sölu varnings eða þjónustu til starfseminnar. Eins minnka tekjur hafnarsjóðs ef ekki verður landað þar.
Tugir starfa horfið á stuttum tíma
Jón Halldór Guðmundsson, fulltrúi í heimastjórn Seyðisfjarðar, telur að alls hafi tapast 50-60 störf frá Seyðisfirði vegna breytinganna, óháð því hvort þau störf voru unnin af einstaklingum með heimilisfesti þar eða annars staðar.
Hann óttast að þar með sé grafið undan kjölfestu í byggðarlaginu. „Fólk er áhyggjufullt og finnst þetta mjög slæmt. Þetta eru heilsársstörf sem eru að hverfa. Hér eru mörg störf í ferðaþjónustu en fæst þeirra eru allt árið. Fólk sem býr ekki á staðnum allt árið skapar ekki sömu kjölfestu í byggðarlaginu. Íbúar óttast að Seyðisfjörður verði svefnbær yfir veturinn og ferðamannastaður á sumrin.“
Síldarvinnslan keypti útgerð Gullvers og fiskvinnsluna árið 2014. Samkvæmt heimildum Austurfréttar þótti þá strax vera orðið ljóst að ráðast þyrfti í umtalsverðar fjárfestingar, meðal annars endurbætur eða endurnýjun á skipinu sem hefur lítið breyst frá því það var smíðað árið 1983.
Nauðsynlegt að rifja upp hugmyndirnar sem komu inn í starfshópinn
Eftir að tilkynnt var um lokun frystihússins lýsti Síldarvinnslan sig reiðubúna að koma að atvinnuuppbyggingu til að milda höggið. Skipaður var starfshópur sem skilaði af sér tillögum vorið 2024. Jón Halldór segir nauðsynlegt að fylgja eftir tillögum hópsins.
„Við Seyðfirðingar verðum að ræða málin. Við getum ekki hugsað um hvernig allt var áður fyrr heldur hvernig við getum náð vopnum okkar. Fyrsta atriðið er að standa vörð um önnur störf sem eru hér.
Síðan er það starfshópurinn. Hann vann mikið í nokkra mánuði og fékk til sín margar hugmyndir. Því miður hefur ekki náðst að hrinda neinni þeirra í framkvæmd, sem eru vonbrigði því þær litu margar vel út. Af einhverjum ástæðum fóru þær ekki í gang. Ég veit ekki af hverju en það hlýtur að vera ástæða nú til að skoða hvort hægt sé að setja álitslegustu verkefnin í gang.“
Stjórnvöld þurfa að byggja upp innviði
Í samtali við Austurfrétt í gær sagði Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, að fyrirtækið væri tilbúið að setja fjármagn í verkefni sem væru líkleg til að lifa en það væri annarra að draga vagninn.
Dagmar Ýr Stefánsdóttir, sveitarstjóri Múlaþings, tekur undir að styrkja þurfi heilsársatvinnu á Seyðisfirði. Hún nefnir að ferðaþjónustan sé öflug á Seyðisfirði en hún sé árstíðabundin þar eins og annars staðar á Austurlandi.
„Verkefnið er að gera ferðaþjónustuna á Austurlandi að heilsársatvinnugrein. Möguleikar á aukinni nýtingu flugvallarins á Egilsstöðum skipta þar mál. Í Múlaþingi eru tvær af fjórum gáttum inn í landið, flugvöllurinn og höfnin á Seyðisfirði.
Öll tækifæri á svæðinu hverfast um að stjórnvöld komi á móti okkur í þeirri innviðauppbyggingu sem þarf. Við höfum beðið lengi eftir uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar en við vitum ekki enn hvenær akbrautin á að koma, hvað þá lenging vallarins fyrir fraktflug. Þessu þurfa stjórnvöld að svara.“
Jónína Brynjólfsdóttir, formaður heimastjórnar Seyðisfjarðar og forseti sveitarstjórnar Múlaþings, segir að kraftur verði aftur settur í atvinnumálin á Seyðisfirði. „Það er afskaplega leiðinlegt að þetta hafi komið upp. Við erum að fara yfir stöðuna og reynum að funda með stjórnendum Síldarvinnslunnar til að ræða málin. Það er fullt tilefni til að endurvekja vinnu starfshópsins og það verður gert.“
Fjarðarheiðargöng væru það besta sem hægt væri að gera fyrir Seyðfirðinga
Búið er að setja atvinnumál á Seyðisfirði á dagskrá næsta fundar byggðaráðs sem verður eftir viku. Þau eru líka á dagskrá fundar heimastjórnar Seyðisfjarðar þann 9. október.
Þessa vikuna stendur yfir kjördæmavika á Alþingi sem þýðir að þingmenn eru á ferð í fjórðungnum. Þeir funduðu með austfirskum sveitastjórnum á Egilsstöðum í gær. „Við ræddum við þingmenn í gær og minntum á mikilvægi Fjarðarheiðarganga fyrir framtíð Seyðisfjarðar. Samfélagið þarf stuðning og göng væru það besta sem hægt væri að gera fyrir það.“
Við höfum kallað eftir skýrum svörum um hvernig á að tryggja byggð í landinu öllu. Hvernig svæði eins og Austurland eiga að geta vaxið og dafnað. Við erum bjartsýn á endurskoðun byggðaáætlunar sem framundan er.“
Mynd: Síldarvinnslan/Ómar Bogason