Skip to main content

Miklar fjarvistir starfsfólks vegna Covid gera HSA erfitt fyrir

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. feb 2022 17:18Uppfært 11. feb 2022 17:18

Rekstur Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA)er þungur þar sem starfsfólk hefur lent í einangrun og sóttkví vegna Covid-faraldursins. Vetrarfærð hjálpar ekki til.


Nýjasta minnisblaði sóttvarnalæknis, um tilslakanir í sóttvarnaaðgerðum, fylgir yfirlit yfir stöðuna á heilbrigðisstofnunum vítt og breitt um landið. Um er að ræða litakóðaða töflu þar sem ástandið á mismunandi deildum stofnanna eru greind.

Þannig eru flestar stofnanir gular hvað varðar mönnun og vinnuálag, sem þýðir að vinnuálag er mikið en viðráðanlegt, þótt lítið megi út af bregða. Landsspítalinn fær rauðan lit, sem er of mikið álag, en Heilbrigðisstofnun Suðurlands grænan til marks um að mönnun sé í góðu lagi.

HSA er önnur tveggja stofnana sem lituð er appelsínugul í þessum dálki. Sami litur er á henni hvað varðar gæði og öryggi sem og „rauð flögg“. Aðbúnaður, svo sem rými, telst hins vegar í góðu lagi.

Einnig segir í minnisblaðinu að 75% starfsfólks heimahjúkrunar í Neskaupstað hafi í byrjun vikunnar ekki verið í vinnu vegna faraldursins sem og allir hjúkrunarfræðingar á skurðstofu. Það hafi haft áhrif á bráðaviðbrögð en bráðatilfellum á skurðstofunni er sinnt af fólki í vinnustaðasóttkví B.

„Það er ekkert launungamál að starfsfólk HSA hefur verið í einangrun og það gerir okkur erfiðra fyrir. Smit starfsfólks veldur erfiðleikum við mönnun sums staðar. Það er viðbúið að haldi áfram. Við gerum okkar besta til að tryggja órofinn rekstur, sem tekist hefur hingað til,“ segir Guðjón Hauksson, framkvæmdastjóri stofnunarinnar.

Hann bendir á að þótt hlutfallið sé oft hátt í einstökum einingum verði að setja þann varnagla að einingarnar séu ekki fjölmennar. Fáir einstaklingar séu því stundum að baki háu hlutfalli.

Í minnisblaðinu kemur einnig fram að vetrarfærð hafi sett strik í reikninginn. Suma daga sé erfitt að flytja starfsfólk milli starfsstöðva og dregist hafi að koma læknum til starfa austur þar sem flug var fellt niður. „Við erum í miðjum vetri og veðrið síðustu vikur hefur ekki leikið við okkur,“ segir Guðjón.

Í athugasemdum annarra heilbrigðisstofnana má meðal annars lesa að mikil þreyta sé komin í starfsfólk eftir mikið álag. Þá sé læknamönnun tæp fyrir en ekki bæti úr þegar afleysingalæknar forfallist vegna Covid. Bitist sé um þá alla.


„Það hafa oft verið langir dagar, vikur og mánuðir þessi tvö ár sem þetta ástand hefur varað. Heilbrigðisstofnanir um allt land hafa staðið í ströngu. Sýnatökur og bólusetningar hafa reynt á bæði stofnanirnar sjálfar og starfsfólk.

Heilt yfir finnst mér bæði heilbrigðiskerfið og HSA hafa staðið sig ótrúlega vel en ástæðan fyrir því er að margir hafa lagt mikið á sig. Bæði stjórnendur og starfsfólk hafa verið vakin og sofin yfir ástandinu síðustu tvö ár.

En það er líka svo að það er almennt komin þreyta í samfélagið. Hér eystra finnst mér aðgerðastjórn almannavarna hafa staðið sig vel í að upplýsa fólk með að koma með tilmæli og leiðbeiningar og íbúar hafa sýnt mikla þrautseigju.“