Miklu getur munað á eldsneytisverði á litlum bletti
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 30. jún 2025 12:14 • Uppfært 30. jún 2025 12:14
Verðmunur milli bensínstöðva innan sama byggðakjarna getur munað tugum króna á ákveðnum dögum. Á hverjum degi munar nokkrum krónum á bensínstöðvum olíufélaganna þótt þær séu nánast hlið við hlið.
Þetta kemur fram í samantekt verðlagseftirlits ASÍ. Þar segir að í athugunum, sem dreifast yfir árið, hafi mælst 32,7-37,7 krónu munur innan dags milli stöðva.
Egilsstaðir eru meðal þeirra staða þar sem mesti munur mældist, milli stöðva Orkunnar og N1 þótt milli þeirra sé innan við hálfur kílómetri. Neytandi með 40 lítra tank getur því sparað sér um eða yfir 1.300 krónur með því að velja ódýrari stöðina þann daginn.
Að líkindum er á slíkum dögum um að ræða mikinn tímabundinn afslátt hjá ódýrari aðilanum. „Markmiðið með að draga fram þessar tölur er að hvetja neytendur til umhugsunar um að svona tilfelli geta komið upp. Þessar upplýsingar eru vel aðgengilegar hjá aðilum eins og Gasvaktinni eða GSMbensíni,“ segir Ágúst Arnórsson, hagfræðingur hjá ASÍ.
Lækkanir á heimsmarkaðsverði ekki skilað sér til neytenda
Í samantekt verðlagseftirlitsins er gagnrýnt að lækkanir á heimsmarkaðsverði hafi ekki skilað sér til íslenskra neytenda. Við bætist að gengi íslenskur krónunnar hefur styrkst gagnvart Bandaríkjadali, sem er sá gjaldmiðill sem almennt er notaður í olíuviðskiptum.
ASÍ segir að olíutunnan hafi frá áramótum lækkað um 10%. Á íslenskum markaði hafi komið fram að meðaltali 2% lækkun á hvern lítra til neytenda en 3% aukinn hagnaður af sömu einingu til olíufélags.
Ágúst segir þessar tölur vera áminningu til neytenda um að vera á varðbergi þegar áformað er að afnema eldsneytisgjald, sem rukkað er í gegnum olíufélögin, en tekið upp kílómetragjald sem ríkið innheimtir beint. „Breytingarnar sem boðaðar eru ættu að leiða til rúmlega 100 krónu lækkunar á eldsneyti sem við teljum að eigi að skila sér til neytenda,“ segir Ágúst.
Fyrir ákveðna bíleigendur geti virkilega borgað sig í að fylgjast með tölunum. „Þeir sem eru á minni og sparneytnari bílum munu borga hlutfallslega hærra kílómetragjald. Ef þú átt slíkan bíl þá gerir kílómetragjaldið aksturinn dýrari sem þýðir að þú hefur meiri hvata til að kaupa ódýrara eldsneyti,“ bætir hann við.
Að versla við ódýrustu stöðina hvetur til samkeppni
Samkvæmt símælingu, sem nálgast má á gsmbensin.is eða Gasvaktinni, er í dag bensínið ódýrast á Austurlandi á stöðvum Orkunnar á Egilsstöðum, 313,5 kr/lítrinn. Á öðrum Orkustöðvum, stöð Atlantsolíu á Egilsstöðum og ÓB í Fellabæ er það 313,6 kr/lítrinn. Dýrast er það á stöðvum N1, 315,9 krónur.
Orkustöðvarnar bjóða líka ódýrasta dísilinn, 319,3 kr/lítrinn. Verðið er það sama á þeim öllum. Dísillinn er dýrastur á stöðvum N1, 322,9 krónur. Hins vegar er hæpið að það borgi sig að fara á milli stöðva með 40 lítra tank, sem skilar 80 króna sparnaði í bensíni en 120 í dísil.
Aðspurður um möguleikana til að tryggja að lækkanir, eins og orðið hafa á heimsmarkaði, skili sér til neytenda, segir Ágúst að þeir felist helst í að beina viðskiptum sínum til ódýrari stöðva. Þeir möguleikar eru síður fyrir hendi þar sem ákveðin olíufélög eru í einokunarstöðu eins og á minni stöðum á landsbyggðinni.
„Að versla við ódýrustu stöðina hverju sinni ýtir undir verðsamkeppni. Stöðvarnar næst Costco, sem er marktækt með ódýrasta eldsneytið, eru hvað ódýrastar þótt þær séu ekki jafn ódýrar. Þetta er samstarfsverkefni neytenda um allt land að veita aðhald þar sem það er hægt. Verðþróunin það sem af er ári sýnir að það er mikilvægt að fylgjast með hvað gerist þegar kílómetragjaldið verður tekið upp.“