Skip to main content

Minnast 100 ára afmælis Aðalsteins Jónssonar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 31. jan 2022 11:22Uppfært 31. jan 2022 18:54

Eskja minnist þess um þessar mundir að 100 ár eru liðin frá fæðingu Aðalsteins Jónssonar útgerðarmanns. .

Í færslu á Facebook segir að Aðalsteinn var fæddur í Eskifjarðarseli 30. janúar 1922 og lést þann 30. apríl 2008. Aðalsteinn hóf snemma störf við útgerð og eignaðist fyrst hlut í bát árið 1946. Árið 1960 tók hann við stjórn Hraðfrystihúss Eskifjarðar sem þá átti í rekstrarerfiðleikum.

„Var hann forstjóri og aðaleigandi félagsins fram til ársins 2000, eða þar til hann settist í helgan stein. Rekstur fyrirtækisins einkenndist af bjartsýni og áræðni Aðalsteins og fékk hann snemma viðurnefnið Alli ríki,“ segir í færslunni

„Fyrirtækið var jafnan stærsti vinnuveitandi í byggðarlaginu og er eitt af öflugustu útgerðarfyrirtækjum landsins. Aðalsteinn var sæmdur bæði riddara- og stórriddarakrossi íslensku fálkaorðunnar og var valinn maður ársins í íslensku viðskiptalífi af Frjálsri verslun árið 1996.“

Þá segir að Aðalsteinn var stjórnarmaður í Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna í mörg ár og sinnti jafnframt ýmsum trúnaðarstörfum. Aðaláhugamál Aðalsteins utan starfsins voru laxveiði og brids og vann hann til fjölda verðlauna á þeim vettvangi.

Mynd: Aðalsteinn Jónsson ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni þáverandi forseta Íslands árið 1999 á Eskifirði./eskja.is