Minni kraftur í kolmunnaveiðunum en í fyrra
Skip Síldarvinnslunnar í Neskaupstað hafa hvert af öðru komið til hafnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði síðustu daga til löndunar með kolmunna í fiskmjölsverksmiðjur fyrirtækisins. Þrátt fyrir að veiðar hafi gengið þokkalega segja skipstjórar að minni kraftur sé í veiðunum í ár en var á síðasta ári.
Margrét EA landaði fyrsta kolmunnafarmi ársins í Neskaupstað síðastliðinn föstudag, um 1.800 tonnum. Á heimasíðu Síldarvinnslunnar er rætt við Hjört Valsson skipstjóra sem sagði að alfinn hefði fengist í fimm hollum og í öllum hefði lengi verið dregið. „Ég held að menn séu sammála um að það sé ekki jafn mikill kraftur í þessum veiðum núna og var á sama tíma í fyrra. Hinsvegar ber að hafa í huga að veiðin getur verið fljót að breytast,“ er haft eftir Hirti. Veitt var í færeysku lögsögunni.
Á sunnudaginn koma svo Börkur NK með 3.000 tonn til Neskaupstaðar og landaði meirihluta aflans þar en rest á Seyðisfirði. Vilhelm Þorsteinsson EA landaði þá tæplega 2.700 tonnum á Seyðisfirði á mánudaginn og Beitir NK um 2.500 tonnum í Neskaupstað. Í samtali við Hálfdán Hálfdánarson, skipstjóra á Berki, á heimasíðu Síldarvinnslunnar er hann sammála Hirti um að ekki sé jafn mikill kraftur í veiðunum nú og í fyrra. Sannkölluð blíða hafi verið alla veiðiferðina en bölvuð bræla um helgina hins vegar.
Síldarvinnlan fékk úthlutað ríflega 91.000 tonna kolmunnakvóta fyrir yfirstandandi ár, langmestu aflaheimildina, eða tæplega 30 prósent kvótans.