Skip to main content

Minningarathöfn í Fáskrúðsfjarðarkirkju vegna andláts ungrar konu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. ágú 2025 12:20Uppfært 28. ágú 2025 12:22

Minningarathöfn verður haldin í Fáskrúðsfjarðarkirkju í dag eftir að ung kona, Bríet Irma Ómarsdóttir sem hefði orðið 25 ára í nóvember, lést á sunnudag. Prestur segir íbúa þar í áfalli og að atvikið rífi upp sár víða.


„Það er gríðarlega mikil sorg á Fáskrúðsfirði og samfélagið er í miklu áfalli. Þetta teygir sig líka til fjarðanna hér í kring og víðar. Það voru áföll hér í fyrra og þetta atvik rífur upp þau sár,“ segir Benjamín Hrafn Böðvarsson, prestur í Austfjarðaprestakalli.

Með þessu vísar Benjamín Hrafn til þungra áfalla á Austfjörðum sumarið 2024. Í júní lést barn á leikskólaaldri í Neskaupstað eftir skammvinn veikindi. Faðir þess fórst af slysförum í ágúst. Tveir ungir karlmenn, annar þeirra búsettur á Fáskrúðsfirði, létust síðan sviplega í ágúst og september. Í ágúst var einnig framið tvöfalt morð í Neskaupstað.

Að taka afstöðu með lífinu


Benjamín Hrafn, sem leiðir athöfnina í dag, segir að inntak hennar byggi á grunngildum kristninnar um trú, von og kærleika. „Þessar minningarathafnir eru mikilvægar fyrir samfélagið til að halda áfram því lífið gerir það sannarlega. Við verðum að halda í vonina og taka afstöðu með lífinu.“

Andlátið snertir marga, Benjamín Hrafn segir að Bríet Irma hafi átt marga vini og vandamenn enda reynst mörgum vel því hún vildi allt fyrir alla gera. „Það er ótrúlegt hvernig þetta litla samfélag stendur saman og sýnir samhug. Þessi minningarathöfn er mikilvæg fyrir samfélagið og endurspeglar samhug þess. Ég veit að fjölskyldan er þakklát fyrir stuðninginn og kann að meta hann.“

Áfallamiðstöð opin eftir athöfnina


Minningarafhöfnin í Fáskrúðsfjarðarkirkju hefst klukkan 17:00. Hægt er að fylgjast með streymi í gegnum Facebook-síðu kirkjunnar.

Eftir athöfnina verður áfallamiðstöð opin í Skólamiðstöðinni. Þar verða fulltrúar frá Heilbrigðisstofnun Austurlands, Rauða krossinum, kirkjunni, Pieta-samtökunum og félagsþjónustu Fjarðabyggðar til að veita sálrænan stuðning og sálgæslu.

„Kirkjugestir verða hvattir til að koma þangað og þangað eru líka velkomnir þeir einstaklingar sem ekki treysta sér til kirkju. Ég vona að fólk noti þetta tækifæri til að taka utan um hvert annað, eiga innilegt samtal og þiggja veitingar eða þá þjónustu sem í boði verður.“

Hvar er hægt að fá áfallahjálp á Austurlandi?


Hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) er hægt að senda póst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða hringja á heilsugæslu HSA og fá samtal við hjúkrunarfræðing í síma 470-3000 á dagvinnutíma. Sjá upplýsingar um opnunartíma á vefsíðu stofnunarinnar http://www.hsa.is

Hjá kirkjunni eru prestar til viðtals fyrir hjálp eða sálgæslu eins og óskað er eftir:
Arnaldur Arnold Bárðarson, Breiðdalsvík, 766 8344, This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Benjamín Hrafn Böðvarsson, 861 4797, This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Ingibjörg Jóhannsdóttir, djákni, 760 1033, This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Félagsþjónustan í Múlaþingi 470 0700
Félagsþjónustan í Fjarðabyggð 470 9015 fyrir ráðgjöf og upplýsingar

Hjálparsími Rauða krossins 1717 er alltaf opinn og þar er einnig hægt að ná sambandi við ráðgjafa í gegnum netspjall.

Fólki með sjálfsvígshugsanir er bent á upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is, Hjálparsíma Rauða krossins s.1717, á netspjallið 1717.is og á Pieta símann s.552-2218. Þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi er bent á stuðning í Sorgarmiðstöð s. 551-4141, upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið á heilsuvera.is og á Pieta símann s.552-2218.