Minnisblað um jarðgöng fæst ekki afhent

Dómsmálaráðuneytið hefur hafnað ósk Austurfréttar um afriti af minnisblaði frá almannavörnum þar sem fjallað er um jarðgangakosti á Austfjörðum. Dómsmálaráðherra hefur kallað eftir því að fyrri ákvörðunum um jarðgangaframkvæmdir í fjórðungnum verði breytt á grundvelli þess.

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, lýsti í gær þeirri skoðun sinni í viðtölum við Mbl.is og Stöð 2 að betur færi á því að gera T-jarðgöng, fyrst frá Seyðisfirði til Norðfjarðar um Mjóafjörð og síðan tengingu frá Mjóafirði upp í Hérað, frekar en hringtengingu með göngum fyrst undir Fjarðarheiði frá Héraði til Seyðisfjarðar og síðan áfram til Norðfjarðar um Mjóafjörð eins og eru í núgildandi jarðgangaáætlun.

Jón sagðist byggja skoðun sína á öryggissjónarmiðum sem hann sagði ekki hafa verið höfð uppi þegar starfshópur, sem hann upphaflega skipaði sem samgönguráðherra, skilaði skýrslu um jarðgangakosti árið 2019. Hann vísaði í staðinn til minnisblaðs almannavarna sem hann lagði fram á ríkisstjórnarfundi síðasta föstudag.

„Við vorum bara að vekja athygli á því út frá síðustu atburðum á Austfjörðum hversu mikilvægt það er í framtíðarvegagerð á svæðinu að hafa í huga forgangsröðun í þágu öryggismála,“ sagði hann í samtali við Mbl.is.

Hann nefndi þó fleiri kosti í viðtali Stöðvar 2: „Fyrir byggðirnar er þetta líka miklu ríkari tenging í atvinnusvæðum og slíku. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að út frá svona heilbrigðissvæði, spítalinn er jú, héraðssjúkrahúsið er á Neskaupstað. Síðan er fólk að fara til vinnu í álverinu og laxeldi á milli fjarða. Þarna yrði komin bara í sjólínu tenging milli allra þessara svæða.“

Aðgangi synjað


Austurfrétt óskaði í gær eftir minnisblaðinu frá almannavörnum sem vísuðu málinu til dómsmálaráðuneytis. Þar fengust þau svör að minnisblöð sem útbúin eru fyrir ríkisstjórnarfundi séu undanþegin upplýsingarétti. Stjórnvöldum beri þó að taka afstöðu um hvort veita eigi aðgang í ríkara mæli þegar beiðni um aðgang sé synjað. Í þessu tilfelli sé aðgangur ekki veittur.

Austurfrétt hefur sömuleiðis óskað eftir upplýsingum um hver sé höfundur minnisblaðsins, hver hafi beðið um það og hver sé útgangspunktur þess. Ráðuneytið svaraði þeim spurningum með því að ráðherra væri heimilt að tjá sig um efni minnisblaðsins eins og hann hefði gert í viðtölum við landsmiðlana í gær.

Hvað stóð í skýrslu starfshópsins?


Haustið 2017 skipaði Jón Gunnarsson starfshóp til að bera saman framangreinda jarðgangakosti á Austurlandi. Það tilkynnti hann á þingi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi sem og að það væri von hans að þessi framkvæmd yrði sú næsta á eftir Dýrafjarðargöngum, sem opnuðu haustið 2020. Rannsóknarspurning hópsins var hvaða framkvæmd væri best til þess fallin að rjúfa vetrareinangrun Seyðisfjarðar.

Hópurinn skilaði niðurstöðum sínum sumarið 2019 en þá var Sigurður Ingi Jóhannsson orðinn ráðherra samgöngumála. Hópurinn mælti með hringtengingunni, það er undir Fjarðarheiði og þaðan áfram til Norðfjarðar. Sigurður Ingi lýsti vilja sínum til ráðast í þau göng, fyrst undir Fjarðarheiði og svo strax áfram til Norðfjarðar.

Þau meðmæli byggðu meðal annars á úttekt á samfélagslegum áhrifum sem KPMG vann fyrir hópinn. Niðurstaða KPMG var að hringtengingin væri sú leið sem kæmi best út, bæði fyrir Seyðisfjörð og fyrir Austurland í heild. Með henni hefðu íbúar svæðisins val um tvær sem drægi úr líkum á ófærð setti strik í reikninginn. KPMG ræddi meðal annars við sveitarstjórnarfulltrúa úr Fjarðabyggð, Fljótsdalshéraði og frá Seyðisfirði.

Í viðtölunum í gær vísaði Jón meðal annars til þess ástands sem skapaðist í mars þegar björgunarlið var teppt á Egilsstöðum eftir að hafa komið með flugi úr Reykjavík til aðstoðar vegna snjóflóðanna í Neskaupstað. Í skýrslu KPMG eru T-göngin gagnrýnd fyrir að veita ekki nógu tryggja tengingu við Hérað. Í samantekt sem Veðurvaktin vann fyrir starfshópinn er einnig bent á að illviðrasamt sé á Eyvindarárdal þar sem gagnamunni T-ganganna kæmi út Héraðsmegin. Þar sé ekki snjóþungt en geti orðið mjög hvasst.

Í úttekt um jarðgöng á Austurlandi frá árinu 1993 voru T-göngin talin fremri hringtengingunni. Starfshópurinn segir hins vegar að síðar hafi orðið verulega breytingar á austfirsku samfélagi og þjónustu sem hafi áhrif á það mat.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.