Minnkandi ánægja með þjónustu Múlaþings
Ánægja íbúa með þjónustu sveitarfélagsins Múlaþings minnkar nokkuð á milli ára samkvæmt nýlegri úttekt Gallup.
Árleg könnunin, sem nær til 20 stærstu sveitarfélaga landsins, tekur til þrettán mismunandi atriða sem snerta daglegt líf íbúa í viðkomandi sveitarfélögunum. Ánægja fólks með gjörðir Múlaþings minnkar í átta tilvikum af þessum þrettán á milli áranna 2020 og 2021. Ánægjustig jókst ekki í neinum tilvikum.
Heilt yfir telja þátttakendur að gott sé að búa í Múlaþingi en 82% svöruðu þeirri spurningu játandi. Hér skal þó hafa hugfast að sameinað sveitarfélag var aðeins stofnað í október 2020 og nær því ekki til alls þess árs.
Stór meirihluti er töluvert ánægðari en ekki með ýmsa þjónustu á borð við skóla, aðstöðu til íþróttaiðkana, gæði umhverfis, þjónustu við barnafólk og menningarmál svo nokkuð sé nefnt en vel yfir 70% svarenda lýsa yfir ánægju með allt slíkt.
Versta útreið fær Múlaþing vegna almennra skipulagsmála en þar eru einungis 25% ánægðir með framgöngu sveitarfélagsins en 37% óánægðir. Þá eru 26% íbúa ósáttir við sorphirðumál, 17% súrir með gæði umhverfis við heimili sín og 16% telja þjónustu við eldri borgara dapra.
Mynd: Frá Egilsstöðum en þar situr sveitarstjórn Múlaþings að störfum.