Minnkar loðnukvótinn um 100 þúsund tonn?
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 02. feb 2022 17:27 • Uppfært 02. feb 2022 17:29
Mögulegt er að útgefinn loðnukvóti verði minnkaður um 100 þúsund tonn. Minni loðna mældist en áður í leiðangri sem lauk í dag.
Tvö rannsóknarskip Hafrannsóknastofnunar fóru af stað 19. janúar og gerðu tvær bergmálsmælingar á stofninum. Miklu munaði á mælingunum tveimur, en sú fyrri er talin ómarktæk vegna óhagstæðra veðurskilyrða.
Hrygningarstofn loðnu mældist 904 þúsund tonn. Veiði fyrir leiðangurinn var um 200 þúsund tonn sem gefur 1100 tonna stofn. Í haust var stofninn talinn 1883 þúsund tonn og var því gefinn út 904 þúsund tonna kvóti.
Þetta gæti leitt til þess að kvótinn verði lækkaður um 100 þúsund tonn. Íslendingar eiga tæplega þrjá fjórðu hluta kvótans eða rúm 660 þúsund tonn. Lokakvóti gæti því lækkað niður í um 600 þúsund tonn.
Hafrannsóknastofnun telur þó þörf á nánari rannsóknum þar sem hafís norðvestur af landinu kann að hafa komið í veg fyrir að þar mældist loðna. Því er talin þörf á sérstökum leiðangri á það svæði. Hann gæti hafist eftir um viku og ættu niðurstöðurnar að liggja fyrir um miðjan mánuðinn.
Mynd úr safni.