Mislingasmit á Norðausturlandi

Heilbrigðisstofnun Austurlands hefur sent frá sér upplýsingar eftir að tilkynning barst um mislingasmit hjá fullorðnum einstaklingi á Norðausturlandi. Viðkomandi er í einangrun í heimahúsi. Einstaklingar sem sóttu hátíð á Vopnafirði um síðustu helgi eru í smithættu.

Þar kemur fram að smithætta sé fyrir hendi meðal óbólusettra á ákveðnum stöðum. Í fyrsta lagi á Þórshöfn, einkum meðal samstarfsfólks þess veika. Þeir fá upplýsingar frá vinnuveitanda.

Í öðru lagi er talin smithætta meðal þeirra sem sóttu fjölmenningarhátíð sem haldin var á Vopnafirði sunnudaginn 14. apríl síðastliðinn. Við afmarkaðar aðstæður er talin smithætta á Akureyri en þar hefur verið haft samband við fólk.

Mislingar eru veirusjúkdómur sem smitast frá öndunarvegi. Einkenni koma fram 1-3 vikum eftir smit. Þau eru helst hiti, kvefeinkenni, augnroði og/eða útbrot á húð.

Óbólusettir eru í áhættu fyrir smiti og veikindum. Þau sem hafa verið bólusett fyrir mislingum í tvígang, eða fengið mislinga áður, smitast mjög ólíklega en ef það gerist eru einkenni oftast væg. Hérlendis er bólusett við 18 mánaða og 12 ára aldur.

Þau sem telja sig vera með mislinga eru hvött til að hafa samband við næstu heilsugæslu símleiðis (1700) eða gegnum netspjall Heilsuveru. Á sömu stöðum er hægt að óska eftir bólusetningu. Fólk er beðið um að mæta ekki á heilsugæslu eða sjúklingamóttöku án þess að fara samband fyrst, nema í neyð.

Þau sem hafa engin einkenni en eru hugsanlega útsett fyrir smiti, sérstaklega óbólusett gegn mislingum sem ekki hafa fengið mislinga áður, ættu að halda sig til hlés og vera vakandi fyrir einkennum í 3 vikur frá útsetningu.

Sérstaklega ætti að forðast umgengni við viðkvæma einstaklinga svo sem barnshafandi, börn yngri en 5 ára, einstaklinga á heilbrigðisstofnunum og hjúkrunarheimilum.

Nánari upplýsingar eru á vef HSA.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.