Skip to main content

Mjög að lifna yfir fasteignamarkaðnum austanlands

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. mar 2025 13:54Uppfært 25. mar 2025 13:55

Fasteignamarkaðurinn á Austurlandi hefur ekki verið jafn fjörugur í langan tíma og síðustu vikurnar en áberandi er hvað ungt fólk sýnir því sérstakan áhuga síðustu misserin að flytja aftur á heimaslóðir austanlands.

Þetta er tilfinning Elínar Káradóttur, fasteignasala hjá Byr fasteignasölu, en hún er sjálf í hópi yngra fólks sem er að leggja land undir fót og flytja sig  um set austur á land. Hún segir mikla hreyfingu nú um stundir á markaðnum en sem fyrr sé ákveðinn skortur á eignum til sölu.

„Það er engin spurning að það er líf á markaðnum sem ábyggilega tengist vorkomunni en ekki síður áberandi eru fleiri fyrirspurnir frá ungu fólki sem býr annars staðar en hugsar sér til hreyfings aftur heim hingað í fjórðunginn. Enda óvíða betra að búa og koma upp fjölskyldu en á Austurlandi og sjálf er ég að standa í flutningum austur einmitt út af þeim miklu lífsgæðum sem þar er að finna.“

Eftirspurn er meiri en framboð að hennar sögn og það gömul saga og ný að sérstaklega skortir minni íbúðir á söluskrá og það bæði í Múlaþingi og Fjarðabyggð.

„En það er verið að byggja töluvert af einmitt þannig eignum sem öðrum þannig að allt er þetta á réttri leið.“