Mjög aukin löggæsla yfir Unglingalandsmót UMFÍ
Það er víðar en hjá skipuleggjendum Unglingalandsmóts Ungmennafélags Íslands um þarnæstu helgi á Egilsstöðum þar sem mikill undirbúningur er í gangi vegna þessa stóra móts sem hefur hin síðari ár trekkt um eða yfir tíu þúsund gesti þar sem það hefur verið haldið.
Það á líka við um lögregluna á Austurlandi enda ekki oft sem búist er við viðlíka fjölda gesta og munu koma sér fyrir á og við Egilsstaði um miðja næstu viku en mótið sjálft verður sett fimmtudaginn 31. júlí og stendur yfir fram til sunnudagsins 3. ágúst.
Það staðfestir Hjalti Bergmar Axelsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, í samtali við Austurfrétt en hann segir lögreglu hafa verið í miklu samstarfi við alla skipuleggjendur mótsins undanfarið.
„Við höfum átt virkt samtal við skipuleggjendur landsmótsins, UMFÍ og ÚÍA, ásamt þéttu samtali við sveitarfélagið Múlaþing í aðdragandanum. Svo sannarlega vonumst við til að veðrið verði hliðhollt og sem flestir gesti komi til okkar.“
Allt að tólf lögreglumenn verða á vaktinni hvern dag meðan á mótinu stendur frá morgni til kvölds.
„Við verðum með tíu til tólf lögreglumenn á vakt á hverjum degi og erum við að fjölga nokkuð miðað við venjulegar helgar. Við munum verða með öflugt umferðareftirlit þessa helgina einnig og tekur mönnunin mið af því einnig. Miðað við samtöl okkar við skipuleggjendur er mikil vinna lögð í alla þætti skipulagsins og vonumst við eftir því að hlutverk okkar verði sem minnst annað en sýnileiki og viðvera.“