Skip to main content

Von á mjög slæmu veðri um allt Austurland

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. feb 2022 10:30Uppfært 21. feb 2022 10:37

Veðurstofa Íslands hefur gefið út appelsínugula viðvörun fyrir spásvæðin Austurland að Glettingi og Austfirði sem tekur gildi seint í kvöld og gildir í nótt.


Á báðum spásvæðum tekur gul viðvörun gildi klukkan átta í kvöld. Frá þeim tíma er spáð suðaustan 15-23 m/s með snjókomu eða slyddu og versnandi ferðaveðri.

Appelsínugula viðvörunin tekur gildi klukkan ellefu og gildir til klukkan sjö í fyrramálið. Þá er spáð 20-28 m/s með snjókomu, eða mögulega slyddu þegar líður á. Rignt gæti um tíma, helst við ströndina.

Líkur eru á foktjóni og fólki ráðlagt að ganga frá lausum munum. Verktökum er bent á að ganga vel frá framkvæmdasvæðum. Ekkert ferðaveður verður meðan viðvörunin gildir.

Ekki er hægt að segja af eða á hvort ákveðið svæði innan fjórðungs fari verr út en önnur. „Það verður mjög slæmt veður um allt Austurland,“ segir Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. „Það eina sem við sjáum er meiri úrkoma á fjörðunum en vindhraðinn er svipaður.“

Lægðin gengur frá suðri til norðurs en fer hratt yfir þannig að veðrið skellur á og gengur niður á svipuðum tíma um allt svæðið. Von er á að mestu lætin verði afstaðin um miðja nótt og eftir klukkan 3-4 dragi hratt úr vindi.

Áfram verður þó nokkur vindur, 10-15 m/s fram undir hádegi á morgun.