Málefnasamningur á Héraði: Farið yfir forsendur fjármála
Greina á stöðu fjármála og fara yfir forsendur fjárhagsáætlunar samkvæmt málefnasamningi nýs meirihluta á Fljótsdalshéraði sem undirritaður var í gær. Þar segir einnig að tilvera og sjálfstæði allra grunnskólanna í sveitarfélaginu skuli tryggt.
Þegar niðurstaða úr úttekt á fjármálum sveitarfélagsins liggur fyrir á að kynna hana fyrir íbúum sveitarfélagsins og fara yfir þá kosti sem eru í stöðunni. Skoða á stjórnsýslu sveitarfélagsins en hlífa velferðarþjónustunni eftir fremsta megni í niðurskurði.
Tryggja á tilveru og sjálfstæði allra grunnskólanna á Fljótsdalshéraði. Við undirritun samningsins sögðu oddvitarnir að ekki stæði til að sameina yfirstjórnir skólanna. Breytingar á rekstrarumhverfi tónlistarskólanna verða aðeins í samráði við skólasamfélagið að því gefnu að raunverulegur fjárhagslegur eða faglegur ávinningur sé af þeim. Stofnun listaskóla verður frestað og hugmyndir um hann endurskoðaðar.
Heildstæði fjölskyldustefna Fljótsdalshéraðs á að vera tilbúin fyrir áramót. Stefnt er að opnara aðgengi að bæjarfulltrúum með spjall- og borgarafundum.
Meirihlutinn vill efla fullvinnslu afurða á svæðinu og nýtingu heits vatns. Fráveitur sveitarfélagsins verða væntanlega færðar undir HEF sem verði í eigum samfélagsins.
Ekki verða opnuð ný byggingarsvæði í bili og skipulag miðbæjarins á Egilsstöðum endurskoðað. „Þegar aðstæður leyfa skal horft til viðbyggingar við leikskólann Hádegishöfða, starfsmanna- og búningsaðstöðu við Íþróttamiðstöðina og viðbyggingar við Safnahúsið.“
Málefnasamningurinn í heild.