Möðrudalsöræfi og Fjarðarheiði ekki opin fyrir hádegi

Ekki eru líkur á að fært verði yfir Möðrudalsöræfi, Fjarðarheiði og Vopnafjarðarheiði fyrr en líður á daginn. Snjómoksturstæki eru að störfum á flestum vegum á Austurlandi.

Talsvert bættist á páskasnjóinn í norðaustanhríðinni um helgar eins og veðurspáin gerði ráð fyrir. Fjölmargar leiðir, bæði á hálendi og láglendi, voru lokaðar í gær.

Þá tókst að opna nokkrar leiðir, til dæmis á Borgarfjörður þar sem zúmba-danshelgi stóð yfir. Vatnsskarðið lokaðist aftur í gær og er snjóblásari á leið þangað til að opna það.

Hægt var að opna víða á Fljótsdalshéraði í gær. „Við njótum góðs af sólinni þótt hún sjáist ekki. Það er ekki sjálfgefið að opna allar leiðir. Það er kominn mikill snjór og á þeim stöðum sem skaflar myndast þá eru þeir stórir,“ segir Jens Hilmarsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni í Fellabæ.

Þannig er staðan til að mynda á Strandarhálsi, milli Egilsstaða og Hallormsstað og við Ekkjufell og Þorleifará í Fellum. Þær leiðir teljast færar en verið er að moka þær betur.

Áhersla hefur verið lögð á að tryggja skólahald í Brúarásskóla. Þannig er búið að opna bæði Austurdal og Jökuldal auk þess sem vonast er til að leiðin um Hróarstungu opnist fljótlega. Búið er að ryðja út Hjaltastaðaþinghá að Vatnsskarði.

Upp í Austurdal þarf að senda plóg til að ryðja malarveginn betur. Sömu sögu er að segja um Norðurbyggðina í Skriðdal, en Skriðdalurinn er almennt þungfær. Þessi tæki er að fara af stað.

Moksturstæki lögðu af stað frá Vopnafirði, Mývatni og Egilsstöðum til að opna Vopnafjarðarheiði og Möðrudalsöræfi í morgun. Snjóblásari er að störfum í Skjöldólfsstaðamúla. Jens segir að upp úr hádegi skýrist staðan á þessum leiðum, það er hvenær þær geti opnað.

Snjóblásari lagði af stað upp Fjarðarheiði klukkan sex í morgun. Jens segir þar enn vonskuveður en svo virðist að úrkoman sé að minnka, eins og spáð hefur verið. Gangi allt eftir geti hún opnað milli 14 og 15 í dag. Hins vegar sé ástandið þar og veðurspáin þannig að hún lokist aftur í nótt.

Snjóþekja er orðin á Fagradal. Þar er skafrenningur og mjög blint um að fara. Á Austfjörðum er hált eða snjóþekja en nokkuð greiðfært sunnan Breiðdalsvíkur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.