Möðrudalsöræfum lokað í kvöld

Vegagerðin hefur ákveðið að loka leiðinni milli Norður- og Austurlands um Möðrudalsöræfi frá klukkan 20:00 í kvöld. Varað er við miklu norðvestanhvassviðri á Austfjörðum og líkur eru á að fleiri vegir lokist.

Veðurstofa Íslands gaf í gær út appelsínu gula viðvörun vegna norðvestan storms og hríðar. Á Austurland og Austfjörðum tekur viðvörunin gildi klukkan fimm í dag. Hún gildir til miðnættis á morgun.

Á Austfjörðum er búist við norðvestan 15-25 m/s þar sem hvassast verður syðst. Í tilkynningu Vegagerðarinnar er varað við að foráttuhvasst verði milli Hafnar og Djúpavogs en hviður upp á 30 m/s allt frá Reyðarfirði vestur undir Eyjafjöll. Líklegt er að lokað verði milli Skaftafells og Djúpavogs.

Á Austurlandi að Glettingi er spáð ögn minni vindi en á móti úrkomu, einkum nyrst á svæðinu. Hún fellur sem rigning eða slydda á láglendi en snjókoma til fjalla. Vegna þessa hefur verið ákveðið að loka Möðrudalsöræfum frá klukkan 20:00 í kvöld. Nýjar upplýsingar verða gefnar út klukkan níu í fyrramálið.

Hálkublettir eru skráðar á Fjarðarheiði, Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði.

Landsnet hefur sent frá sér aðvörun vegna hættu á rafmagnstruflunum. Áraun verður á kerfið vegna slydduísingar, einkum á Norðurlandi, en á morgun verður hvasst á Suðausturlandi, sérstaklega milli Prestsbakka á Síðu og Teigarhorns í Berufirði. Á þeim slóðum verða bæði sviptivindar og almennt vindálag.

Mynd: Unnar Erlingsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.