Skip to main content

Mokstur hafinn eftir storminn

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. feb 2022 13:48Uppfært 07. feb 2022 13:49

Mokstur er hafinn á láglendi á Austurlandi eftir óveður sem gekk yfir fjórðunginn í morgun. Engin útköll bárust björgunarsveitum á svæðinu.


Appelsínugul viðvörun hafði verið gefinn út fyrir svæðið en óveðrið gekk hratt yfir eystra. Því fylgdi þó talsverð snjókoma og vindur. Mestur varð vindurinn 49,7 m/s á Vatnsskarði um klukkan ellefu.

Veðrið er núna að mestu gengið niður. Í tilkynningu frá lögreglu segir að engin útköll hafi borist hvorki björgunarsveitum né lögreglu. Er það þakkað góðum viðbrögðum íbúa sem fóru eftir tilmælum um að vera ekki á ferðinni meðan mesti hvellurinn gengi yfir.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er verið að moka flestar leiðir á láglendi. Næstu upplýsinga um Fjarðarheiði, Fagradal og leiðir á Norðausturlandi er þó ekki að vænta fyrr en klukkan þrjú í dag. Enn er mikið hvassviðri á Vatnsskarði og ófært.

Þungfært er eða þæfingur á Fljótsdalshéraði sem og í Norðfjarðarsveit. Enn ófært milli Fáskrúðsfjarðar og Breiðdalsvíkur en snjóþekja í Vopnafirði, milli Breiðdalsvíkur og Hafnar og Reyðarfjarðar og Eskifjarðar, samkvæmt kortum Vegagerðarinnar.

Mývatns- og Möðrudalsöræfi eru orðin opin en þar er skafrenningur og þæfingur á Jökuldal.