Skip to main content

Mokuðu upp skúr og rafmagnsbúnað sem snjóflóð skemmdu á Oddskarði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. apr 2023 10:25Uppfært 05. apr 2023 10:27

Tvö snjóflóð féllu á Oddskarði í síðustu viku og skemmdu skúrinn við byrjendalyftuna. Í skúrnum var mikilvægur rafmagnsbúnaður til þess að halda byrjendalyftunni gangandi. Áhugafólk úr skíðadeildinni tóku saman höndum og mokuðu búnaðinn upp til þess að koma lyftunni af stað fyrir páskaopnun.

Á miðvikudaginn síðastliðinn tók starfsfólk Skíðamiðstöðvarinnar í Oddsskarði eftir því að snjóflóð hafi fallið á skúrinn við byrjendalyftuna og var hann þó nokkuð skemmdur. Á fimmtudag sá forstöðumaður Oddsskarðs á vefmyndavélinni að annað snjóflóð hafi fallið og tekið skúrinn með sér niður í brekku.

 

Á föstudeginum og um helgina mætti áhugafólk úr skíðadeildinni til að hreinsa brekkuna og týna saman dótið úr skúrnum ásamt braki og dóti sem hafði splundrast um alla brekkuna. Á Facebook síðu skíðasvæðisins í Oddskarði segir: „Takk kærlega fyrir hjálpina öll, þið vitið hver þið eruð og án ykkar værum við ekki einu sinni hálfnuð í að gera páskaopnun í vikunni mögulega.”

 

Jóhann Tryggvason, íbúi í Neskaupstað og skíðakennari stubbaskólans í Oddskarði, var meðal þeirra sem sáu um hreinsunarstarfið í brekkunni. Hann segir þetta annað skiptið sem dótið úr stubbaskólanum lendir í snjóflóði. „Á föstudeginum fórum við þarna upp að reyna að finna rafmagnsbúnaðinn úr skúrnum sem splundraðist út um allt. Dótið okkar úr stubbaskólanum var líka þar, og er að lenda í annað skiptið í snjóflóði og við erum ekki búin að finna allt.”

 

Jóhann segir að fyrst hafi allt sem stóð upp úr snjónum verið mokað frá til þess að finna rafmagnskaplana. „Við fundum rafmagnskaplana sem sluppu býsna vel. Þá fórum við með troðara og ruddum frá lyftunni og týndu jafnóðum það sem kom í ljós.” 

 

„Það eru glerbrot í þessu sem er ekki gott, en við komum því út í kant og týndum það úr skíðaleiðinni. En svo þarf örugglega þegar bráðnar að fara betur yfir brekkuna því það er slatti af glerbrotum þarna.”

 

Svo var settur upp nýr skúr sem var fenginn lánaður af Reyðarfirði. Þá var hægt að tengja rafmagnið aftur og lyftan var komin í gang í gærkvöldi. „Lyftan er komin í stand fyrir páskadagskránna og þá þarf bara að panta gott veður,” segir Jóhann.

 

Þetta voru áhugamenn úr skíðadeildinni sem að fannst ómögulegt að láta þetta koma í veg fyrir páskaopnun. „Gaman að því að allir leggist á eitt og sýni samstöðu. Þetta voru mest strákar úr skíðadeildinni og foreldrar skíðabarna sem komu með upp eftir að moka þetta upp,” segir Jóhann.