Mótmæla lokun pósthússins á Vopnafirði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 30. apr 2025 16:27 • Uppfært 30. apr 2025 16:28
Sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps lýsir vonbrigðum með að Íslandspóstur hafi ákveðið að loka pósthúsi sínu á Vopnafirði. Síðasti opnunardagur þess var í dag.
Þetta kemur fram í fundargerð sveitarstjórnar frá því fyrir viku en hún var birt á vef hreppsins í dag. Íslandspóstur tilkynnti í byrjun apríl að til stæði að loka pósthúsinu þar sem verulega hafi dregið úr viðskiptum á pósthúsum.
Sveitarstjórnin segir að lokunin hafi veruleg áhrif á þjónustu við íbúa og sé með öllu óásættanleg. Þess er krafist að hún verði endurskoðuð og tryggt að íbúar fái áfram fullnægjandi og aðgengilega póstþjónustu.
Íslandspóstur hyggst bera út bréf tvisvar í viku og senda póst heim með póstbíl fyrir hádegi alla virka daga. Eins hefur pósturinn lagt mikla áherslu á póstbox þar sem nálgast má sendingar allan sólarhringinn.
Sveitarstjórnin lýsir áhyggjum af því að hið nýja fyrirkomulag póstþjónustunnar leiði til verðhækkunar á þjónustu, skerði aðgengi að grunnþjónustu og bitni sérstaklega á þeim sem búi í fámennari byggðum. Brýnt sé að jafnræði sé haft að leiðarljósi í allri þjónustu við íbúa landsins.
Sveitarstjórnin ítrekar að Íslandspóstur vinni að raunhæfum lausnum sem tryggi áframhaldandi þjónustu við íbúa. Lagt er til að haldinn verði opinn íbúafundir þar sem breytingarnar verði kynntar og íbúum gefist kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum.
Myndir: Jón Sigurðarson