Skip to main content

Múlaþing dæmt til að greiða bætur vegna ófullnægjandi ferlis við ráðningu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 31. mar 2022 11:40Uppfært 31. mar 2022 13:30

Múlaþing hefur verið dæmt til að greiða umsækjanda um stöðu skólastjóra Seyðisfjarðarskóla 800.000 krónur í bætur. Þáverandi bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar var ekki talin hafa uppfyllt rannsóknarskyldu sína þegar ráðið var í stöðuna árið 2016.


Bæjarstjórn Seyðisfjarðar samþykkti í apríl 2016 að sameina grunn-, leik- og tónlistarskóla í einn. Í kjölfarið var auglýst eftir stjórnanda fyrir hinn sameinaða skóla.

Í auglýsingu var farið fram á réttindi til kennslu auk hæfni til að veita faglega stjórn og forustu við breytingar. Reynsla við stjórn skóla var talin æskileg. Þegar lengra var komið í ferlinu var ákveðið að leggja aukna áherslu á leiðtogahæfni og færni í mannlegum samskiptum. Fengu þeir þættir því aukið vægi í viðtölum og persónuleikaprófi. Samið var við Hagvang um að ræða við og meta umsækjendur áfram fulltrúum kaupstaðarins.

Tveir hæfastir

Fjórar umsóknir bárust, þar af þrjár sem metnar voru öðrum hæfari. Að lokinni yfirferð á hæfni, viðtölum og prófinu stóðu tveir eftir hæfastir. Munurinn á milli þeirra var eitt stig og reið matið á hæfni í mannlegum samskiptum baggamuninn. Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að ráða þann sem var efstur.

Stefnandi, sem varð í öðru sæti, óskaði strax eftir skriflegum rökstuðningi og svaraði bæjarstjóri fyrir hönd kaupstaðarins. Í kjölfarið leitaði stefnandi til Kennarasambands Íslands sem óskaði eftir gögnum málsins frá kaupstaðnum. Þau fengust ekki öll þar sem hluti þeirra var í vörslu Hagvangs.

Athugasemdir við gagnavörslu

Málinu var skotið til Umboðsmanns Alþingis sem taldi málefnalega hafa verið ráðið í stöðuna. Hann gerði hins vegar athugasemd við gagnavörsluna, að sveitarfélagið ætti hafa og varðveita þau gögn sem Hagvangur hafði, samningar við einkafyrirtæki leystu sveitarfélög ekki undan þeim skyldum. Kennarasambandið hélt því áfram að óska eftir gögnunum.

Sumarið 2019 óskaði stefnandi eftir því að Seyðisfjarðarkaupstaður myndi greiða tólf mánaða biðlaun. Stefnandi hélt því fram að ákvörðunin hefði orðið honum áfall og álitshnekkur sem leitt hefði til heilsubrests. Ákvörðunin hefði að auki leitt til þess að viðkomandi þurfti að flytja úr bænum og selja hús sitt. Því hafnaði kaupstaðurinn.

Dómsmálið var höfðað í kjölfarið. Þar hélt stefnandi því fram að hlutlægum þáttum hefði verið vikið til hliðar fyrir huglæga í matinu, eins og fyrr segir. Fyrir dómi var farið fram á átta milljónir í vangoldin laun og tveggja milljóna miskabætur, vegna stórkostlegs gáleysis stjórnenda bæjarins þar sem aðeins hluti gagna hafi legið fyrir bæjarstjórn við ákvörðunina.

Múlaþing tók við málarekstrinum eftir sameiningu við Seyðisfjörð haustið 2020. Í vörn sveitarfélagsins er því haldið fram að ekki tíðkist að leggja fram vinnugögn við ákvarðanatöku, hins vegar sé byggt á megingögnum sem séu aðgengileg eftir þörfum kjörinna fulltrúa. Rannsókn sveitarfélagsins hafi verið vönduð, jafnvel meiri en í sambærilegum störfum. Ágreiningurinn snéri að skjalavistun og þótt annmarkar hafi verið á málinu leiði það ekki til skaðabótaskyldu. Þá taldi sveitarfélagið tjón stefnanda ósannað, því viðkomandi hefði fengið jafn vel launaða vinnu við kennslu strax um haustið.

Í dómi Héraðsdóms Austurlands eru hins vegar gerðar athugasemdir við hvernig haldið var utan um ferlið. Dómurinn finnur til dæmis að því að þeir fulltrúar sem sátu starfsviðtölin hafi ekki skrifað sérstaka fundargerð, né hafi glærukynningum umsækjenda eða öðrum gögnum verið haldið til haga. Aðeins einn kjörinn fulltrúi hafi skrifað minnispunkta í viðtölunum. Bæjarstjórn hefði hins vegar að eigin frumkvæði borið ábyrgð á að öll mikilsverð gögn væru skráð og vistuð.

Dómurinn tekur fram að skorblað umsækjanda hafi ekki verið kynnt stefnanda, né afhent honum á seinni stigum þegar hann leitaði gagna. Sækjandi hafi aldrei fengið sérfræðigögnin, þar með talið persónuleikaprófið og bæjarstjórn ekki lagt að Hagvangi að afhenda þau.

Ekki leitað umsagna

Stærsta athugasemd dómsins lítur að því að eftir viðtölin var ekki ákveðið að leita umsagna um umsækjendurna en í málflutningi sveitarfélagsins var því haldið fram að persónuleikaprófið hefði komið í stað þeirra. Fram kom í máli ráðgjafa Hagvangs að fyrirtækið hefði álitið umsækjendurna tvo jafn hæfa og hlutverk bæjarstjórnar verið að velja milli þeirra.

Lögum samkvæmt ber að taka tillit til menntunar, starfsreynslu og umsagna þegar tveir séu jafnir við ráðningu. Dómurinn bendir á að umsagnirnar hefðu verið mikilvægar um hina huglegu þætti til að styrkja ákvörðunina og tryggja hún væri byggð á lögákveðnum grunni.

Niðurstaðan er því að þótt ferlið hafi um margt verið vandað þá hafi verið veikleikar í því. Persónuleikaprófið geti ekki talist fullnægjandi í stað umsagna. Ákvörðunin hafi um mikilsverð atriði byggst á hrifningu og einhliða fullyrðingum. Sveitarfélagið hafi því sýnt af sér ámælisverðan skort á rannsókn og beri hallann á að hafa ekki tryggt ákvörðunina. Ekki hafi verið vegið að æru eða persónu umsækjanda en honum að ófyrirsynju orðiðað meini.

Sveitarfélagið var því dæmt til að greiða stefnanda 800 þúsund krónur, auk 1,5 milljónar króna í málskostnað.