Múlaþing hyggst gera greiningu á félagsheimilum sínum, ástandi og notkun
Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings hefur samþykkt að hafin verði vinna við að framkvæma greiningu á félagsheimilum í eigu sveitarfélagsins, ástandi þeirra mannvirkja og notkun þeirra hin síðari ár.
Erindi þetta barst upphaflega frá heimastjórn Fljótsdalshéraðs sem fékk á sitt borð úttekt sem gerð var um ástand félagsheimilisins Arnhólsstaða í Skriðdal.
Alls á og rekur sveitarfélagið Múlaþing ein sex félagsheimili í heild sem eru flest komin á tíma varðandi viðhald og í tilfellum endurbætur. Fjögur þeirra staðsett á Fljótsdalshéraði auk félagsheimilanna Herðubreiðar á Seyðisfirði og Fjarðarborgar á Borgarfirði eystra. Framkvæmdir og endurbætur hafa staðið yfir í þeim tveimur síðarnefndu undanfarin misseri auk þess sem félagsheimilið Tungubúð í Hróarstungu hefur undanfarið fengið nokkra yfirhalningu.
Bókaði heimastjórnin í kjölfarið að tekið yrði til umfjöllunar og stefnumörkunar framkvæmd og forgangsröðun viðhaldsverkefna sveitarfélagsins en ekki síður að tekið yrði til umræðu hlutverk, staða og þörfin metin fyrir félagsheimili á Fljótsdalshéraði.
Umhverfis- og framkvæmdaráð tók þeim ábendingum vel og hyggst framkvæma greiningu á félagsheimilinum, notkun þeirra og ástandi almennt en ætlar að framkvæma sams konar greiningu á öllu félagslegu húsnæði í eigu Múlaþings.
Félagsheimilið í Skriðdal en úttekt fór fram á félagsheimilinu fyrir nokkru. Mynd Facebook/Félagsheimilið Arnhólsstöðum