Múlaþing meðal þeirra sem græða mest á breyttri úthlutun Jöfnunarsjóðs
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 30. apr 2025 08:57 • Uppfært 30. apr 2025 09:00
Framlag ríkisins til Fjarðabyggðar, Múlaþings og Vopnafjarðarhrepps eykst verði tillögur innviðaráðherra að breytingum á lögum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga óbreytt.
Eyjólfur Ármannsson, innviðaráðherra, kynnti frumvarpið í gær en það á sér langan aðdraganda, að minnsta kosti aftur til ársins 2023 þegar þáverandi ráðherra skipaði hóp til að yfirfara reglur um sjóðinn.
Jöfnunarsjóður hefur það hlutverk að útdeila fjármagni frá ríki til sveitarfélaga. Byggir það á nokkrum lögum og reglugerðum, meðal annars um grunnskóla sem fluttust frá ríki til sveitarfélaga fyrir um 30 árum en einnig fleiri verkefnum sem sveitarfélögin sinna.
Fjármagni sjóðsins er úthlutað áfram eftir ákveðnum forsendum, sem nú hafa verið til yfirferðar. Meðal þeirra breytinga sem gerðar eru núna er að tekjujöfnunarframlög verða sameinuð í eitt, framlög fyrir nemendur með íslensku sem annað mál verða veitt öllum sveitarfélögum sem uppfylla skilyrði og loks fá Reykjavík og Akureyri sérstakt höfuðstaðaálag, sem er ætlað til að mæta mikilvægri þjónustu sem þau veita öllum íbúum landsins.
Hvað þýðir breyting á úthlutun Jöfnunarsjóðs fyrir sveitarfélög á Austurlandi?
Samhliða kynningunni voru kynntir útreikningar á hvað breytingarnar þýða fyrir stök sveitarfélög landsins. Af austfirsku sveitarfélögunum hagnast Múlaþing mest. Miðað við árið 2024 fengi það 261 milljón eða 3,2% meira með nýja frumvarpinu en áður. Sveitarfélagið fékk um 1,33 milljarða í fyrra.
Fjarðabyggð fengi tæpum 93 milljónum meira eða 1,1% en sveitarfélagið fékk 614 milljónir í fyrra. Vopnafjarðarhreppur fengi 6 milljónir í viðbót eða 0,6%. Hreppurinn fékk 227 milljónir í fyrra.
Fljótsdalshreppur fær ekkert sem áður, en hreppurinn er í nokkurra sveitarfélaga þar sem tekjur af útsvari og fasteignagjöldum eru það hátt yfir landsmeðaltali að þau fá ekki úthlutað úr sjóðnum. Tekjur Fljótsdælinga koma af stöðvarhúsi Fljótsdalsstöðvar. Með Hæstaréttardómi árið 2019 voru reglurnar frá 2012, þar sem tekjurnar voru teknar af sveitarfélaginu, dæmdar ólöglegar. Alþingi breytti lögum í kjölfarið.
Hvaða sveitarfélög græða mest og hver tapa mestu á nýjum lögum um Jöfnunarsjóð?
Múlaþing er á landsvísu í hópi þeirra sveitarfélaga sem hagnast mest á breytingunni, bæði í krónum talið og hlutfallslega. Hlutfallslega bætir Skagaströnd mestu við sig, 4,7% en langhæsta viðbótin, 400 milljónir, rennur til Reykjavíkur.
En það eru líka sveitarfélög sem verða fyrir verulegum skerðingum, þar á meðal sveitarfélög sem hafa staðið höllum fæti. Hlutfallsleg skerðing er mest hjá Tjörneshreppi, 42%. Einnig er hoggið að Langanesbyggð sem er stert um 16% eða 174 milljónir. Súðavík og Árneshreppur missa einnig tæp 16%. Í krónum talið eru það 65 milljónir hjá Súðavík og 13 milljónir í Árneshreppi.