Múlaþing og Fljótsdalshreppur sektuð fyrir að hafa brotið lög með að seinka sorpútboði
Kærunefnd útboðsmála hefur sektað sveitarfélögin Múlaþing og Fljótsdalshrepp fyrir brot á lögum um opinber útboð þegar þau framlengdu samning við Íslenska gámafélagið síðasta haust. Sorphirðan fær þó að halda áfram eins og samið hefur verið um út september á grundvelli almannahagsmuna.Forverar Múlaþings, Fljótsdalshérað og Seyðisfjarðarkaupstaður, sömdu upphaflega við Íslenska gámafélagið um sorphirðu, gámaflutninga, gámaleigu og tengda þjónustu til tæplega átta ára 2016. Fljótsdalshreppur var með í því útboði og samningsgerð. Djúpavogshreppur samdi síðan við fyrirtækið 2019.
Samningarnir áttu að renna út í september 2023. Skömmu áður barst tilboð frá Íslenska gámafélaginu um framlengingu. Samið var fyrst til sex mánaða frá nóvember 2023 með möguleika á framlengingu út árið 2024 en stefnan sett á útboð og samningar samkvæmt því yrðu komnir á fyrir lok september 2024.
Breytingar á mannahaldi og lögum
Í málsvörn sinni til kærunefndarinnar sögðu sveitarfélögin að ákveðið hefði verið að fara þessa leið þar sem umfangsmiklar breytingar stóðu yfir á lögum um úrgangsmál árið 2023. Þau tóku gildi í byrjun ársins en reglugerð með nánari útfærslu lá ekki fyrr en um mitt ár. Miðað við það hefði verið of skammur tími til að bregðast við með gerð útboðsgagna og útboði áður en samningurinn rynni út. Múlaþing hélt því fram að fleiri sveitarfélög hefði lent í sambærilegum vandræðum og því frestað útboði. Í lögum væri undanþáguheimild við sérstakar aðstæður eins og þegar almannahagur og heilsa væri í húfi, sem sorphirða sé.
Þá hefðu verið mannabreytingar á umhverfissviði Múlaþings um sama leyti og viðræður við Fjarðabyggð um samvinnu í úrgangsmálum. Að auki hélt Múlaþing því fram að einnig hafi haustið 2023 verið skoðað nánar að skipta útboðinu upp í einstaka liði, í því skyni að auka samkeppni. Eins hefði verið reynt að hafa framlengingu samningsins eins skamma og hægt væri, sem birtist í því að heimild til framlengingar út árið væri ekki nýtt. Aðalkrafa Múlaþings var þó að málinu yrði vísað frá á þeim forsendum að kærandi hefði ekki verið aðili að innkaupaferlinu.
Krafa um skaðabætur
UHA Umhverfisþjónusta, áður GS Lausnir, kærðu þennan gjörning í desember í fyrra. Kærunefndin hafnaði í vor kröfu þess um stöðvun samnings þar sem kæran hefði verið of óskýr en hélt áfram úrvinnslu málsins. Því lauk með úrskurði fyrir helgi.
Krafa UHA Umhverfisþjónustu var í nokkrum liðum. Þar var krafa um að samningurinn yrði lýstur óvirkur, þar sem lög um opinber innkaup hefðu verið brotin, en einnig krafa um skaðabætur af hálfu bæði Íslenska gámafélagsins og sveitarfélaganna. Þannig sagðist UHA Umhverfisþjónusta hafa lagt út í fjárfestingar upp á 60 milljónir króna til að geta tekið þátt í útboði sem hafi verið væntanlegt frá því síðla árs 2021.
UHA Umhverfisþjónusta stefndi upphaflega aðeins Múlaþingi í málinu en leit svo á að Fljótsdalshreppur væri einnig málsaðili þar sem sveitarfélögin hefðu verið í samstarfinu frá árinu 2016. Múlaþing hafði orð fyrir þeim í málsvörninni en Fljótsdalshreppur skilaði inn gögnum sem nefndin bað um.
Engin heimild fyrir framlengingu
Í úrskurðinum segir að ýmsar kröfur í kærunni séu utan valdheimilda nefndarinnar, svo sem refsingar gegn Íslenska gámafélaginu eða hvort rétt hafi verið að verkið yrði boðið út á Evrópska efnahagssvæðinu.
Nefndin vísar einnig frá kröfum UHA Umhverfisþjónustu um skaðabætur á þeim að heimild nefndarinnar til að úrskurða bætur miðist við kostnað brotaþola við að undirbúa og taka þátt í tilboði. Þá telur nefndin að búið sé að verða við hluta krafnanna þar sem útboðið var auglýst um miðjan júní.
Kærunefndin telur hins vegar vegar að engin heimild hafi verið fyrir hendi til að framlengja samningana. Þess vegna hafi myndast nýtt samningssamband. Nefndin hafnar málsástæðum sveitarfélaganna um að sérstakar og bráðar aðstæður hafi verið uppi. Í fyrsta lagi hafi frá upphafi samnings legið fyrir að hann rynni út í september 2023.
Kærunefndin segir meginregluna þá að bjóða út verk yfir 50 milljónum, en áætluð verðmæti sorphirðusamningsins, er vel yfir 100 milljónir á ári. Eins hafi breytingar á mannahaldi verið fyrirsjáanlegar, sem og viðræður við Fjarðabyggð, fyrir utan að þær ástæður séu allar á ábyrgð sveitarfélaganna. Um knappan tíma segir nefndin að heimildir séu til að stytta útboðsfresti niður í allt að 15 daga. Að þessu virti sé ekkert sem heimili framlenginguna við Íslenska gámafélagið.
Ekki hægt að stöðva sorphirðu
Kærunefndin fellst hins vegar á málsvörn sveitarfélaganna að samfella í sorphirðu varði við almannahag og neyðarástand geti skapast við rof. Þess vegna sé ekki hægt að gera samningana óvirka frá og með uppkvaðningu úrskurðar heldur er talið hæfilegt að miða við að þeir gildi út september. Eftir þann tíma geti samningurinn ekki framlengst.
Kærunefndin fellst ekki á að Múlaþing hafi þegar gert samninginn óvirkan með að láta hann aðeins gilda út september, það eigi sér enga lagastoð. Það hækkar sektina að samningurinn sé í gildi en á móti litið til mildunar að ljóst sé að alltaf hafi staðið til að bjóða þjónustuna út.
Múlaþing var því sektað um 3,2 milljónir króna en Fljótsdalshreppur um 45 þúsund. Sektirnar renna í ríkissjóð. Samningurinn er úrskurðaður óvirkur frá 30. september. Þá er málskostnaður UHA Umhverfisþjónustu upp á 650 þúsund krónur felldur á Múlaþing. Heimild er til þess þegar varnaraðili telst hafa tapað veigamestu hlutum máls.
Þann 12. júní auglýstu Múlaþing og Fljótsdalshreppur sameiginlega eftir tilboðum í úrgangsþjónustu. Útboðinu er skipt upp í þrjá sjálfstæða verkhluta: söfnun úrgans úr ílátum við heimili, rekstur gámastöðva á Egilsstöðum og Seyðisfirði, leigu á gámum og söfnun úrgangs af gámastöð á Djúpavogi. Verktími er út árið 2028. Frestur til að skila inn tilboðum rann út í gær.