Skip to main content

Múlaþing skoðar kaup á landi Egilsstaða 2

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. ágú 2023 11:49Uppfært 09. ágú 2023 12:47

Sveitarfélagið Múlaþing hyggst fá sérfræðing til að vinna verðmat á jörðinni Egilsstöðum 2 rétt til suðurs af bænum sjálfum. Með kaupum á þeirri jörð skal tryggja landsvæði undir atvinnulóðir til framtíðar.

Sveitarstjóri Múlaþings, Björn Ingimarsson, staðfestir við Austurfrétt að til standi að semja við tiltekinn aðila um að vinna formlegt verðmat en fyrir liggi nú þegar að eigendur landsins séu reiðubúnir að selja. Þeir hafi þegar komið fram með hugmyndir um verð á jörðinni.

Það var upphaflega umhverfis- og framkvæmdaráð sveitarfélagsins sem beindi því til byggðaráðs að festa kaup á jörðinni enda mjög takmarkað úrval lausra atvinnulóða á svæðinu. Byggðaráð samþykkti svo fyrr í vikunni að skoða slík kaup nánar en með þeim formerkjum að sérfróður aðili ynni fyrst sjálfstætt verðmat á jörðinni. Sveitarstjóri segir svo koma í ljós þegar það liggi fyrir hvort saman náist með kaupin.

Áheyrnarfulltrúi í byggðaráði, Þröstur  Jónsson úr Miðflokki, lét sérstaklega bóka á fundi ráðsins þá skoðun sína að ljóst væri að þessi hugsanlegu landakaup kæmu eingöngu til vegna veglagningar Suðurleiðar frá Fjarðarheiðargöngum. Sjálfur hefur Þröstur verið ötull fylgismaður Norðurleiðar frá komandi göngum og sagði skondið að Múlaþing ætlaði út í landakaupakostnað vegna Suðurleiðar þegar ljóst mætti vera að tekjur fengjust af landi vegna Norðurleiðarinnar.

Jörðin Egilsstaðir 2 er sú næsta til suðurs við byggðina á Egilsstöðum eins og sjá má á meðfylgjandi korti. Kort Map.is