Múlaþing sýnir lítinn áhuga að bæta bílastæðismál við Bókakaffi í Fellabæ
Það ekki óþekkt að troðið sé á matmálstímum og oftar en það á veitinga- og menningarstaðnum Bókakaffi við bryggjusporð Lagarfljótsbrúar í Fellabænum. Vinsældirnar hafa þó keyrt um þverbak síðan nýr rekstraraðili tók við síðasta haustið og vel yfir hundrað manns stoppa þar jafnan í hádegismat síðustu mánuði. Þeir þurfa þó sumir að leggja bílum sínum í töluverðri fjarlægð.
Bókakaffið í Fellabæ er velþekktur staður enda verið rekinn með ágætum árangri um árahríð.
Í haust sem leið tók við stjórnartaumum þar Agnes Jónsdóttir og hennar rekstrarform og veitingar hefur aukið gestakomur til muna frá því sem áður var. Svo mikið reyndar að fólk verður beinlínis frá að hverfa því engin eru bílastæðin nálægt. Blaðamaður Austurfréttar vitnaði átta þýska ferðamenn sem urðu frá að hverfa í hádeginu fyrr í dag því allt var troðið og engin stæði né sæti að fá.
Beint fyrir utan Bókakaffið er hægt að leggja sjö til átta bílum með sæmilegu móti og fjögur bílastæði önnur er að finna aðeins lengra frá við Lagarfljótið. Þess utan verða viðskiptavinir að leggja upp á grasbölum eða við íbúðahúsnæði innar í götunni með tilheyrandi óþægindum fyrir þá íbúa sem þar búa.
Gréta Sigurjónsdóttir, sem lengi vel rak Bókakaffið og býr þar við hliðina, fór þess á leit við sveitarfélagið seint í vetur að bílastæðum yrði fjölgað sökum vinsælda staðarins en hún fékk nánast umsvifalaust neitun við þeirri beiðni frá umhverfis- og framkvæmdaráði sveitarfélagsins. Benti ráðið á að hentað gæti viðskiptavinum staðarins að leggja innst í Helgafelli og við Sunnufell sem eru báðar íbúagötur. Ráðið var hins vegar tilbúið til að mála núverandi stæði strax í sumar.
Sjálf segir Gréta að hún hafi verið of önnum kafin undanfarið til að leggjast yfir svör sveitarfélagsins en það standi til að gera gera gangskör þar á fljótlega. Það gangi varla að sveitarfélagið gefi leyfi til veitingarekstrar á tilteknum stað en sýni svo engan lit þegar viðkomandi staður nær vinsældum.
„Þetta er lúxusvandamál sem ætti að vera lítið mál að leysa að stærstum hluta með því að fjölga bílastæðunum við fljótsbakkann. Nú eru viðskiptavinir til dæmis að leggja á grasbölum meðfram allri götunni. Það hlýtur að vera hægt að gera betur en það.“
Staðan við staðinn í hádeginu í dag í Helgafellsgötuna. Um 120 manns í mat en hluti viðskiptavina þurfti að leggja annaðhvort á grasbölum með tilheyrandi ónæði og skemmdum eða lengra frá og labba spottakorn. Mynd AE