Skip to main content

Múlaþing þarf að hagræða í rekstri til að dekka útgjöld vegna nýrra kjarasamninga kennara

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 17. mar 2025 10:58Uppfært 17. mar 2025 11:09

Af hálfu Múlaþings er nú leitað leiða til að hagræða í rekstri sveitarfélagsins í ljósi nýsamþykktra kjarasamninga við kennara. Þetta eitt helsta verkefni nýs sveitarstjóra um þessar mundir.

Nýverið voru samþykktir nýir kjarasamningar við kennara landsins eftir að til verkfalla hafði komið af þeirra hálfu víða á landinu og þar á meðal austanlands. Í þeim samningum var meðal annars fallist á umtalsverðar launahækkanir til kennara enda sú stétt setið nokkuð á eftir öðrum stéttum um langa hríð.

Aukin útgjöld sveitarfélaga vegna þessara samninga hafa þýtt að innan Múlaþings er nú leitað leiða til að hagræði í rekstrinum til að vega upp á móti þeim auknu gjöldum sem þetta kostar að því er fram kom í máli sveitarstjóra Dagmar Ýr Stefánsdóttur á síðasta sveitarstjórnarfundi.

„,Um leið og við fögnum því að nýir samningar séu í höfn og óskum kennurum auðvitað til hamingju með samningana þá þurfum við að horfast í augu við að þessi auknu útgjöld sem þarf til að fjármagna samningana eru ekki til staðar. Þetta var ekki inn í fjárhagsáætlun hjá okkur þannig að það er ákveðið verkefni framundan. Það er ljóst að hér er um að ræða ákveðna leiðréttingu á launum kennara en það breytir því ekki að þetta er umfram það sem gert var ráð fyrir í áætlunum ársins og okkur bíður því það verkefni að hagræða í rekstrinum til að mæta auknum útgjöldum. Það er nú unnið að því innan fjármálateymis Múlaþings að ná utan um málið í heild.“

Nýr sveitarstjóri Múlaþings hefur haft kappnóg að gera sínar fyrstu vikur í starfi en stórt verkefni er að hagræða í kjölfar nýrra kennarasamninga. Mynd Austurbrú