Múlaþing verði fyrirmynd annarra fjölkjarnasveitarfélaga
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 04. sep 2025 11:35 • Uppfært 04. sep 2025 11:37
Eyjólfur Ármannsson, innviðaráðherra, segir að Múlaþing verði notað sem fyrirmynd við gerð nýrra sveitarstjórnalaga. Hann telur heimastjórnir sveitarfélagsins fyrirbæri sem önnur geti tekið sér til fyrirmyndar.
Á fundi sem ráðherrann hélt á Egilsstöðum í síðustu viku sagði hann að ákvæði í nýjum sveitarstjórnarlögum, sem væntanlega verða lögð fram á Alþingi í haust, um fjölkjarnasveitarfélög myndi byggja á Múlaþingi.
Eyjólfur hrósaði sameiningu Múlaþings og sagði hana hafa tekist vel. Við sameiningu sveitarfélagsins fyrir fimm árum var komið á fót heimastjórnum í hverju þeirra fjögurra sveitarfélaga sem gengu inn í það nýja.
Eyjólfur sagði að fjölkjarnasveitarfélög væru framtíðin. Þau væru svarið við ákalli um þriðja stjórnsýslustigið. Heimastjórnirnar tryggðu síðan þátttöku íbúa.
Vill ekki krefjast aukins meirihluta í sameiningarkosningum
En þrátt fyrir hrósið mátti greina undiröldu meðal fundargesta sem birtist meðal annars í spurningum um hvort ekki væri rétt að sameiningar væru samþykktar með auknum meirihluta, það er 67% atkvæða í stað einfalds meirihluta með 50,1% í ljósi þess að þær væru óafturkræfar. Eyjólfur svaraði að hann teldi einfaldan meirihluta eðlilegan.
Sá kurr kann að tengjast því að þrátt fyrir umræðu um tilkomu Fjarðarheiðarganga og nýs vegar yfir Öxi með sameiningu er hvorug framkvæmdin föst í hendi. Eins og Austurfrétt hefur áður fjallað um sagðist Eyjólfur óbundinn af loforðum fyrri ráðherra enda hefðu þau verið „munnleg en ekki skrifleg.“ Hann sagðist þó álíta að loforð gefin við sameiningar ættu að standa.
Sveitarfélög þurfi að uppfylla kröfur
Þá var hann einnig spurður út í æskilegt lágmark íbúafjölda. Hann svaraði að aðalatriðið væri að sveitarfélög gætu uppfyllt lagalegar skyldur og um þjónustu.
„Vandamálið við sameiningar eru peningar. Ríka sveitarfélagið vill ekki sameinast því fátækara. En væri það eðlilegt að við gætum hér 90 manns í þessum sal stofnað sveitarfélag? Við erum á þessu svæði með sveitarfélag með 111 íbúa. Að byggja grunnskóla og sinna barnavernd – þetta eru lagalegar skyldur sveitarfélaga og þau snúast um grunnþjónustu.“
Þá skýrði Eyjólfur frá því að haustið 2026 sé áætlað að leggja fram nýja byggðastefnu á Alþingi.