Múlinn stækkar um rúmlega 600 fermetra

Tveggja hæða sex hundruð fermetra viðbót bætist við samvinnuhúsið Múlann í Neskaupstað á árinu gangi áætlanir eftir. Samningar eru langt komnir um útleigu stórs hluta viðbyggingarinnar.

Formleg umsókn um stækkun hússins og lóðarinnar með hefur nú verið send sveitarfélaginu og mun byggingarfulltrúi Fjarðabyggðar innan tíðar grenndarkynna breytingarnar fyrir nágrönnum og íbúum. Framkvæmdastjóri Múlans, Guðmundur Rafnkell Gíslason, vonast til að framkvæmdir geti hafist strax með vorinu og veitir varla af enda öll rými núverandi húss verið fullsetin síðasta árið. Einnig er setið um pláss í viðbyggingunni sem þó er tvöfalt stærri en fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir.

„,Þetta verða tvær hæðir vestanmegin hússins og alls rúmlega sex hundruð fermetrar. Það er mikill áhugi vægast sagt og við eigum þegar í samningaviðræðum um leigu á stórum hluta þessa nýja húss. Við stefnum á að geta hafist handa strax í maí og viðbyggingin verði tilbúin um næstu áramót. Við erum búnir að semja við verktaka hér í Neskaupstað, austfirska verktaka, um að gera þetta fyrir okkur og það eru allir klárir í þann slag að gera þetta á jafn stuttum tíma.“

Teikningar af öllum hliðum Múlans að stækkun lokinni. Byggingartíminn rétt rúmt hálft ár gangi allt eftir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.