Skip to main content

Mun betri afkoma Fjarðabyggðar en ráð var gert fyrir

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 14. apr 2025 11:01Uppfært 14. apr 2025 11:30

Rekstrartekjur samstæðureiknings Fjarðabyggðar, A og B hluta, á síðasta ári hækkuðu um 4,6% meðan rekstrargjöldin hækkuðu aðeins um 1,6%. Rekstur sveitarfélagsins fer því batnandi og er nokkuð betri en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir árið 2024 þrátt fyrir loðnubrest á því herrans ári.

Þetta er meðal þess sem lesa má út úr ársreikningi Fjarðabyggðar en fyrri umræða um ársreikninginn 2024 fór fram í bæjarstjórn á fimmtudaginn var. Hann verður formlega samþykktur að lokinni seinni umræðu sem fer fram í byrjun maí.

Samstæðuhlutinn reyndist vera jákvæður um rúman milljarð króna á síðasta ári en af því var A-hlutinn jákvæður um 419 milljónir. Niðurstaðan töluvert betri en áætlun fyrir árið gerði ráð fyrir. Þannig er niðurstaða A-hlutans rúmlega 200 milljónum króna hærri en áætlun og samstæðureikningurinn rúmlega 400 milljónum króna betri. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum en til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu sveitarfélagsins.

Þá er ársreikningurinn 2024 mikið mun betri en niðurstaðan var ári áður 2023 þegar rúmlega 100 milljón króna tap varð á rekstri A-hluta og samstæðureikningurinn í heild 600 milljónum krónum vænni en lokaniðurstaðan var 2024.

Eigið fé samstæðunnar hækkaði duglega milli ára. Það var 7,6 milljarðar króna í árslok 2023 en endaði í 8,9 milljörðum króna um síðustu áramót. Tvær skýringar eru á því; annars vegar rekstrarniðurstaðan sjálf en einnig vegna endurmats lóða á síðasta ári en hvergi hækkaði fasteignamat meira en á Breiðdalsvík og Fáskrúðsfirði.

Gleðileg niðurstaða þrátt fyrir loðnubrest

Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, fagnar bættri fjárhagslegri stöðu en segir að enn betur megi gera.

„Niðurstaðan er sannarlega gleðiefni því árið var nokkuð erfitt og þar ekki síst vegna loðnubrests hjá sjávarútvegsfyrirtækjunum sem jafnan skiptir okkur miklu. Bætt staða er auðvitað að hluta tilkomin vegna slita á Skólaskrifstofu Austurlands sem er einskiptisaðgerð auðvitað en það eru æði margir þættir í rekstrinum þar sem við erum að ná að lækka kostnað og bæta stöðuna almennt og þeirri vegferð hvergi nærri lokið.“

Fasteignamat hækkaði víðast hvar austanlands á síðasta ári og það hafði meðal annars jákvæð áhrif á rekstur Fjarðabyggðar. Mynd GG