Mun minni þreyta nemenda í grunnskólum Austurlands
Samkvæmt niðurstöðum Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar í grunnskólum Austurlands fækkar þeim nemendunum sem segjast oft eða nánast alltaf vera þreytt í skólanum.
Æskulýðsrannsóknin er sérstök rannsókn sem Menntavísindastofnun Háskóla Íslands stendur fyrir af hálfu Mennta- og barnamálaráðuneytisins en markmið hennar er að safna gögnum og varpa ljósi á velferð og viðhorf barna og unglinga gagnvart skólum landsins. Niðurstöðurnar eru og verða nýttar til stefnumótunar fyrir ráðuneytið til framtíðar en rannsóknin hefur farið fram árlega í grunnskólum landsins frá árinu 2021 í 6., 8. og 10. bekkjum.
Niðurstöður síðasta skólaárs liggja nú fyrir og í ljós kemur að þeim fækkaði austanlands sem líkaði mjög vel í skólanum samanborið við niðurstöður ársins þar á undan. 2022 sögðu 30% barna í 6. bekk að sér líkaði þar mjög vel en aðeins 20% að þessu sinni. Í 8. bekk sögðust aðeins 12% líka mjög vel miðað við 18% barna árið áður. Það aðeins í 10. bekk sem hlutfallið batnar milli ára úr 23% 2022 í 26% 2023. Í öllum bekkjum er þó hlutfall þeirra sem líkar mjög vel eða þokkalega í skólanum samanlagt að mestu óbreytt milli ára.
Spurt er meðal annars út í traust nemenda til kennara sinna. Í ljós kemur að það fer lítillega þverrandi hjá sjöttu bekkingum. 2022 treystu 80% þeirra kennurum sínum mjög vel eða vel en aðeins 75% segja sömu sögu nú. Aðeins 48% unglinga í 10. bekk bera traust til kennara sinna nú samanborið við 65% áður. Traustið til kennara eykst hins vegar meðal barna í 8. bekk. Það var 45% 2022 en reynist nú 58%.
Jákvæðari niðurstöður koma í ljós þegar ungmennin eru spurð um þreytu í skólanum sínum. 36% barna í 6. bekk sögðust oftast eða nánast alltaf þreytt í skólanum 2022 en mælast 33% nú. Þreyta minnkar líka í 8. bekknum milli ára eða úr rétt tæplega 50% 2022 í 39% nú. Mestur er munurinn meðal unglinga í 10. bekk en 51% þeirra sögðust oft eða nánast alltaf glíma við þreytu í skólanum 2022 en hlutfall þeirra nú aðeins 32%