Skip to main content

Myndavélakerfi komið í gagnið á Fellavelli

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. júl 2025 13:50Uppfært 21. júl 2025 14:05

Einn angi þess að uppfæra og betrumbæta Fellavöll í Fellabæ og þá ekki síst áður en Unglingalandsmót Ungmennafélags Íslands hefst um mánaðarmótin var að koma þar upp myndavélakerfi. Það nú orðið tengt og starfhæft.

Mikið starf hefur verið unnið á Fellavelli undanfarin misseri í því augnamiði að allt verði eins og best verði á kosið á Unglingalandsmóti UMFÍ sem hefst 31. júlí. Fellavöllurinn með nýtt gervigras verður vel nýttur þá daga sem mótið stendur yfir og með opnun annarrar hæðar vallarhússins verður þar þjónusta í boði líka.

Myndavélakerfið er annað sem bætir aðstöðuna enn frekar en það er af gerðinni Spiideo. Knattspyrnusamband Íslands gaf aðra vélina á völlinn en það eru yngri flokkar Hattar sem keyptu þá síðari.

Kerfið gefur gefur þjálfurum og leikmönnum færi á að yfirfara leiki á vellinum bæði beint og með upptökum en ekki síður er auðvelt að streyma leikjum sem þar fara fram ef svo ber undir. Það er alsjálfvirkt en myndavélarnar leita alltaf uppi boltann á vellinum í hvert sinn.

Að sögn Halldórs Vilhjálmssonar, rafvirkja hjá Rafey, sem setti kerfið upp er um töluverða byltingu að ræða.

„Þessar vélar eru hannaðar þannig að þær dekka allan völlinn og eiga að leita uppi boltann hverju sinni en auðvitað er hægt að stilla þær þannig að þær sleppi því og streymi bara víðmynd en þá eru gæðin aðeins minni. En fólk getur allavega fylgst með ef það kemst ekki á völlinn, það er hægt að lesa númerin á búningunum og fá svona bærilega mynd af gangi mála en andlit eru ógreinilegri. Þessar vélar eru algjör snilld að mínu mati og ekki síst fyrir þau okkar sem eru með börn í yngri flokkunum sem við erum að senda hingað og þangað en komumst ekki alltaf með eins og gengur. Með þessu má engu að síður horfa á þau spila.“

Vélarnar komnar í gagnið en hugsanlega verða einhver streymi í boði frá vellinum yfir Unglingalandsmótið um mánaðarmótin. Mynd AE