Myndavélar komnar upp á bílastæðinu við flugvöllinn á Egilsstöðum

Myndavélar eru komnar upp til að mynda númeraplötur á bílum sem leggja á Egilsstaðaflugvelli. ISAVIA áformar gjaldtöku á þremur flugvöllum frá og með vorinu. Stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi vill að alfarið verði hætt við gjaldtökuna.

ISAVIA setti í lok síðasta árs stefnuna á að hefja gjaldtöku á bílastæðum á Egilsstöðum og Akureyri snemma á þessu ári. Því var frestað eftir mótmæli, þar sem meðal annars var bent á að ósamræmi væri í að rukka ekki fyrir bílastæði við Reykjavíkurflugvöll auk þess sem efast var um lögmæti gjaldtökunnar.

En ISAVIA er ekki hætt við gjaldtökuna og myndavélar eru nú komnar upp á Egilsstöðum. „Ég get staðfest að búið er að setja upp myndavélakerfi fyrir bílastæðin við Egilsstaðaflugvöll og Akureyrarflugvöll. Við erum í miðjum undirbúningi á Reykjavíkurflugvelli. Við gerum ráð fyrir að kerfið verði tekið í notkun og gjaldtaka á bílastæðunum við alla þrjá flugvellina hefjist í vor,“ segir í svari Sigrúnar Jakobsdóttir, framkvæmdastjóra ISAVIA innanlandsflugvalla.

Austfirskar sveitastjórnir mótmæltu gjaldtökunni. Stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi fylgdi henni eftir með bókun þar sem þess var krafist að ISAVIA félli alfarið frá hugmyndum sínum. Í bókun SSA eru efasemdir um lögmæti gjaldtökunnar ítrekaðar auk þess sem henni er lýst sem mismunun í garð íbúa á landsbyggðinni sem komist ekki hjá því að nota dýrt innanlandsflug til að sækja nauðsynlega þjónustu til höfuðborgarsvæðisins.

Mynd: Unnar Erlingsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.