Skip to main content

Myndavélar komnar upp á bílastæðinu við flugvöllinn á Egilsstöðum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. feb 2024 15:47Uppfært 13. feb 2024 15:49

Myndavélar eru komnar upp til að mynda númeraplötur á bílum sem leggja á Egilsstaðaflugvelli. ISAVIA áformar gjaldtöku á þremur flugvöllum frá og með vorinu. Stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi vill að alfarið verði hætt við gjaldtökuna.


ISAVIA setti í lok síðasta árs stefnuna á að hefja gjaldtöku á bílastæðum á Egilsstöðum og Akureyri snemma á þessu ári. Því var frestað eftir mótmæli, þar sem meðal annars var bent á að ósamræmi væri í að rukka ekki fyrir bílastæði við Reykjavíkurflugvöll auk þess sem efast var um lögmæti gjaldtökunnar.

En ISAVIA er ekki hætt við gjaldtökuna og myndavélar eru nú komnar upp á Egilsstöðum. „Ég get staðfest að búið er að setja upp myndavélakerfi fyrir bílastæðin við Egilsstaðaflugvöll og Akureyrarflugvöll. Við erum í miðjum undirbúningi á Reykjavíkurflugvelli. Við gerum ráð fyrir að kerfið verði tekið í notkun og gjaldtaka á bílastæðunum við alla þrjá flugvellina hefjist í vor,“ segir í svari Sigrúnar Jakobsdóttir, framkvæmdastjóra ISAVIA innanlandsflugvalla.

Austfirskar sveitastjórnir mótmæltu gjaldtökunni. Stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi fylgdi henni eftir með bókun þar sem þess var krafist að ISAVIA félli alfarið frá hugmyndum sínum. Í bókun SSA eru efasemdir um lögmæti gjaldtökunnar ítrekaðar auk þess sem henni er lýst sem mismunun í garð íbúa á landsbyggðinni sem komist ekki hjá því að nota dýrt innanlandsflug til að sækja nauðsynlega þjónustu til höfuðborgarsvæðisins.

Mynd: Unnar Erlingsson