Ný plata Miri: Fólk virðist fíla þetta
Austfirska hljómsveitin Miri heldur útgáfutónleika sína í Þjóðmenningarhúsinu í kvöld. Hljómsveitarmeðlimir eru ánægðir með þær viðtökur sem breiðskífan Okkar hefur fengið síðan hún kom út í júlí.
„Fólk virðist fíla þetta. Við fórum smá túr um landið í sumar og platan virtist alltaf seljast þegar fólk var búið að sjá okkur,“ sagði gítarleikarinn Óttar Brjánn Eyþórsson í samtali við Agl.is.
Platan kom út í júlí og hefur síðan fengið mjög góða dóma, bæði í Morgunblaðinu og Iceland Review. „Í dómunum hefur verið komið inn á þætti sem við erum með ánægðir með. Við erum afskaplega þakklátir upptökustjóranum (Curver Thoroddsen) fyrir hjálpina. Hann á stóran þátt í því hvernig platan hljómar.“
Hljómsveitin gaf út litla plötu árið 2005. Óttar segir að síðan hafi hljómsveitin færst „fjær hinu hefðbundna post-rokki,“ stíllinn sé orðinn „harðari, hraðari og fjölbreyttari.“
Tónleikarnir í kvöld fara fram í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík. Húsið opnar klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 1500 krónur. Auk Miri koma fram Bergur Ebbi, Snorri Helga og Loja.