Skip to main content

Náðist að slökkva í sinunni áður en eldurinn óð upp í fjall

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. maí 2023 18:48Uppfært 04. maí 2023 18:55

Slökkvilið Múlaþings var kallað út tvisvar í síðustu viku, fyrst vegna eldsvoða í iðnaðarhúsnæði á Egilsstöðum, síðan til að slökkva sinueld í Hjaltastaðaþinghá.


Fyrra útkallið kom mánudaginn í síðustu viku vegna eldsvoða í verkstæði fyrirtækisins G. Ármannssonar við Miðás á Egilsstöðum.

Haraldur Geir Eðvaldsson, slökkviliðsstjóri, segir að talsverður eldur hafi verið í húsinu og aðkoman ekki verið góð en það hafi viljað til happs að eldsins varð snemma vart. Þess vegna hafi náðst að slökkva áður en hann breiddist lengra út. Talsvert tjón varð á tækjum sem voru í húsinu.

Haraldur segir glímuna við sinueldinn á sunnudag hafa verið erfiðari. Eldurinn hafi komið upp í sinu á túni en síðan borist út fyrir það og stefnt upp í fjall. Vont hafi verið að komast að brunanum á vissum stöðum vegna bleytu á svæðinu, sérstaklega með tækjum, auk þess sem veðurskilyrði hafi verið erfið.

Haraldur Geir segir að blessunarlega hafi náðst að ráða niðurlögum eldsins áður en hann barst upp í fjallshlíðarnar þar sem ógerningur hefði orðið að ráða við hann.

Húsnæði G. Ármannssonar við Miðás á Egilsstöðum eftir eldsvoðann.