Nægilegt byggt í Múlaþingi til að koma til móts við áætlaða íbúðaþörf
Samkvæmt nýrri endurskoðaðri húsnæðisáætlun Múlaþings mun íbúum sveitarfélagsins fjölga um 457 á næstu tíu árum eða um tæp ellefu prósent. Miðað við úttekt Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) dugar fjöldi nýbygginga til að mæta fjölgun á næstu tveimur árum og lóðaframboð nægt til að anna áætlaðri þörf til enn lengri tíma.
Síðastliðin fimm ár hefur íbúum Múlaþings fjölgað alls um 303 talsins eða 6,1% svo ný húsnæðisáætlun gerir ráð fyrir að það hægi nokkuð á fjölgun í sveitarfélaginu næstu árin frá því sem verið hefur.
Sú áætlun sveitarfélagsins gerir ráð fyrir að langmest fjölgun verði á Egilsstöðum eða alls um 70% áætlaðrar íbúafjölgunar næsta áratuginn. Þar næst fjölgar mest á Djúpavogi um 20% meðan Seyðis- og Borgarfjörður skipta með sér 10% af áætlaðri fjölgun íbúa.
Fjöldi íbúða sem nú eru á formlegu byggingarstigi er nægilegur í Múlaþingi til að mæta allri þörf til næstu tveggja ára hið minnsta ef áætlanir ganga eftir. Góð staða er jafnframt varðandi skipulagðar lóðir í öllum kjörnum sveitarfélagsins. Alls eru 388 íbúðalóðir þegar skipulagðar til næstu fimm ára sem mæta vel íbúðaþörfina á því tímabili. 65% þeirra lóða eru á Egilsstöðum, 21% á Seyðisfirði, 8% á Borgarifirði eystri og 7% á Djúpavogi.
Samkvæmt áætlun Múlaþings verður langmest íbúafjölgun á Egilsstöðum næsta áratuginn í byggðakjörnum sveitarfélagsins. Mynd GG