Skip to main content

Næra fiskinasl sigurvegari í alþjóðlegri samkeppni

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. apr 2023 05:08Uppfært 04. apr 2023 05:10

Næra fiskinasl, sem framleitt er á Fáskrúðsfirði, fór heim með fyrstu verðlaun í flokki sjávarafurða úr samkeppninni World Food Innovation Awards. Stofnendur fyrirtækisins segja mikilvægt fyrir ungt fyrirtæki að fá verðlaun sem þessi.


Fiskinasl Næra byggir á íslenska harðfisknum en útfærir hann á nýjan hátt. „Varan okkar er algjörlega ný útgáfa af harðfiskinum og er farin að vekja athygli á alþjóðlegum mörkuðum. Þessi verðlaun eru okkur mikils virði þannig við getum fært heiminum snakk sem byggir á þurrkuðum íslenskum fiski,“ segir dr. Holly T. Kristinsson, framkvæmda stjóri Responsible Foods sem framleiðir vörur undir merkjum Næra.

Næra byggir á tveimur vörulínum. Annars vegar mjólkurafurðum sem þróaðar hafa verið í samvinnu við MS, hins vegar fiskafurðum unnum í nánu samstarfi við Loðnuvinnsluna á Fáskrúðsfirði, sem er hluthafi í fyrirtækinu. Framleiðsla þar er nýhafin.

„Loðnuvinnslan skaffar okkur ýsu í fiskinaslið. Loðnuvinnslan hefur líka byggt upp með okkur hátækniþurrkun fyrir fiskinn á Fáskrúðsfirði og þar er naslið framleitt. Þetta er fyrsta vinnslan í heiminum þar sem fiskur er þurrkaður eftir þessari aðferð. Þróun fiskinaslsins og þessari verðlaun væri ekki möguleg án fjárfesta okkar og samstarfsaðila,“ útskýrir Holly.

Skiptir miklu máli fyrir framgang á alþjóðlegum mörkuðum


Hún segir verðlaunin mikils virði fyrir fyrirtækið sem stefni á umtalsverðan vöxt í ár. „Við erum í skýjunum yfir að hafa fengið fyrstu verðlaun fyrir besta sjávarfangið á World Food Innovation Award.

Það er ótrúlegt fyrir nýsköpunarfyrirtæki að geta fagnað sigri því það eru margar sjávarafurðir í boði og við urðum fremst í alþjóðlegri matarnýsköpun. Það getur verið erfitt að standa í þróun og vera fyrst á markað en þetta gefur okkur byr í seglin til að halda áfram við að þróa vörulínurnar.

Hér er um að ræða virta samkeppni með hefð. Að vinna til þessara verðlauna í samkeppni við fjölda fyrirtækja, þar með stór alþjóðleg matvælafyrirtæki, sýnir að eftir okkur er tekið í nýsköpun matvæla og sjávarfangs sem er mikill áfangi fyrir bæði fyrirtækið okkar og vörumerkið.

Þetta er líka sigur fyrir Ísland. Með þessu færum við fiskinasl upp á æðra plan. Fiskinasl Næra er úrvalsvara, stökkt og nýstárlegt fyrir utan að vera skemmtileg leið til að njóta íslensks sjávarfangs. Þar leiðum við saman gæði íslenska fisksins og mjólkur (smjörs og osts). Það hefur enginn gert þetta áður á þennan hátt og það hefur skilað okkur fyrstu verðlaun í alþjóðlegri samkeppni.

Alþjóðlegar viðurkenningar skipta sköpum við að byggja upp vörumerkið. Við ætlum okkur að vera fyrst með vöru sem þessa á neytendamarkað og bjóða neytendum upp á eitthvað sem þeir vissu ekki að þeir þyrftu. Verðlaunin eru þannig viðurkenning á að við eigum mikla möguleika á markaði,“ segir Holly

Komið í verslanir víðs vegar um Bandaríkin


Til viðbótar sigrinum komst skyrnasl Næra í úrslit í sínum flokki. Árið hefur verið viðburðaríkt hjá Responsible Foods því það hefur þegar tekið þátt í tveimur stórum vörusýningum í Bandaríkjunum. Vörur þess eru þegar komnar í yfir 30 verslanir víðs vegar um Bandaríkin auk Amazon. Það er í viðræðum við stórar erlendar verslunarkeðjur um frekari sölu í Norður-Ameríku, Asíu og Evrópu.

„Fiskinaslið er alveg einstakt sinnar tegundar og voru viðbrögðin á báðum sýningunum í Bandaríkjunum framar vonum. Fólk sem jafnvel borðar ekki fisk var yfir sig hrifið af naslinu. Við ætlum okkur stóra hluti með fiskinaslið og umbylta hefðbundum harðfisk yfir í form sem breiðari hópur getur borðað,“ segir dr. Hörður G. Kristinsson, rekstrarstjóri Responsible Foods.

Þá stefnir fyrirtækið á Sjávarútvegssýninguna í Barcelona, ásamt fleiri íslenskum fyrirtækjum. Þrjár af fiskinaslvörum fyrirtækisins keppa um Seafood Excellene Global verðlaun en tilkynnt verður um úrslitin á sýningunni.