Skip to main content

Nærð engu í gegn nema með að sitja á skrifstofu ráðherra

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. apr 2023 13:32Uppfært 26. apr 2023 17:36

Vinna er komin á fullt innan Fjarðabyggðar við gerð deiliskipulags vegna síðustu snjóflóðavarnargarðanna ofan Neskaupstaðar. Núverandi og fyrrverandi bæjarstjórar segja þörf að setja þrýsting á ríkið um að tryggja fjármögnun þannig að framkvæmdir geti hafist.


Hönnun fjórðu varnargarðanna ofan Neskaupstaðar var kynnt í byrjun mars. Umhverfis- og skipulagsnefnd samþykkti síðan fyrir viku að taka tilboði Landmótunar í gerð skipulagsins. Samkvæmt tímalínu á vinnunni að verða lokið í október.

„Sveitarfélagið leggur allt kapp á að unnið sé eins hratt og hægt er og hefur gert ráðstafanir til þess. Á sama tíma verður þrýst á stjórnvöld um að bjóða garðinn út,“ sagði Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri, á íbúafundi sem haldinn var í Neskaupstað fyrir tveimur vikum. Fundurinn um snjóflóðin sem féllu þar í lok mars.

Varnarmannvirkin verða undir Nes- og Bakkagiljum. Um er að ræða 820 metra langan og 21,5 metra háan þvergarð og tvær raðir að keilum. Ellefu keilur eru í efri röð en níu í þeirri neðri. Hver keila er um 10 metra há og hvor röð yfir 400 metrar að lengd. Í verkið þarf um 600.000 rúmmetra af efni. Endurskoða þarf staðsetningu tjaldsvæðis og strandblakvallar vegna verksins.

Bæði Jóna Árný og Jón Björn Hákonarson, sem lét af störfum sem bæjarstjóri í byrjun apríl, sögðu að allt kapp yrði lagt á að sannfæra stjórnvöld um að verkið þyldi engan bið. Liður í því hefði verið að taka á móti Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra og Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, loftlags- og orkumálaráðherra innan við viku eftir snjóflóðum.

„Við vitum að einhverjum fannst ekki þægilegt að fá ráðherrana í heimsókn og að það getur verið tvíbent en það er mikilvægt til að þeir öðlist skilning á því hvað gerðist til að ráðist verði í aðgerðir með útboði,“ sagði Jóna Árný.

„Það verður að fara og sitja á skrifstofu ráðherra, annars nærðu engu í gegn á Íslandi, sama hvað okkur finnst um það,“ bætti Jón Björn við.

Hann sagði nóg hafa verið innheimt í ofanflóðasjóð með skattheimtu af mannvirkjum og áætlaði að hjá ríkissjóði væru 19-22 milljarðar óráðstafað. Vandamálið snérist um að stýra þyrfti flæði fjár út úr ríkissjóði. „Það verður að spara í öðru, það er ekki flóknara en það. Það verður að fara í þessi verk, hvort sem það er á Norðfirði eða öðrum svæðum sem tilbúin eru til framkvæmda.

Það þarf bara að fara suður og sitja þar – og ég hef nógan tíma til þess í sumar.“

Tölvuteikning af væntanlegum varnarmannvirkjum. Mynd: Landmótun