Næstu dagar og jafnvel vikur gætu orðið strembnar hjá HSA
„Það er ómögulegt að vita auðvitað en eins og staðan er nú gæti þetta orðið strembið næstu dægrin og jafnvel vikurnar,“ segir Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands.Staðan er bágborin hjá stofnuninni en mikill fjöldi Covid-smita og annarra veikinda hjá starfsfólki hefur haft mikil og slæm áhrif á starfsemina. Útlit er jafnvel fyrir að enn fleiri heilbrigðisstarfsmenn verði frá vinnu næstu daga en verið hefur að sögn Guðjóns. Á meðan svo varir gæti þurft að forgangsraða í starfseminni og jafnvel afbóka pantaða tíma en aðaláhersla heilsugæslustöðva er nú á bráðaþjónustu.
„Ef ég ætti að skjóta þá myndi ég ætla að kringum átta prósent af okkar starfsfólki sé frá vinnu þessa stundina og það má ekki aukast mikið án þess að alvarlegur vandi steðji að. Yfirstjórnin er mjög meðvituð um þessa stöðu og við byrjum hvern einasta dag á að fara yfir þessi mál og miðum áætlanir okkar alltaf við allra nýjustu upplýsingar.“
Um 420 manns starfa hjá stofnuninni á þrettán mismunandi starfsstöðvum um allan fjórðunginn sem merkir að 33 starfsmenn eru nú frá vegna veikinda.