Næstu upplýsingar um vatnið á Borgarfirði á miðvikudag
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 16. okt 2023 15:10 • Uppfært 16. okt 2023 16:11
Tvær vikur eru í dag síðan íbúum á Borgarfirði eystra var ráðlagt að sjóða allt neysluvatn. Þrátt fyrir aðgerðir greindist enn mengun í sýnum í síðustu viku en minni en áður. Ný sýni voru tekin í notkun en niðurstöður þeirra koma ekki fyrr en á mánudag.
„Það hefur þótt líklegast að mengunin renni í gegn með tímanum. Það er von okkar og mat að svo verði í næstu sýnum,“ segir Glúmur Björnsson, jarðfræðingur hjá HEF veitum.
Tvær vikur eru síðan gefin var út til ráðlegging til Borgfirðinga um að sjóða allt neysluvatn eftir að E.coli, eða saurgerlar, greindust í vatninu við reglubundna sýnatöku.
Á Borgarfirði eru tvö vatnsból með alls fimm lindarbrunnum. Strax eftir að mengunin fannst var einn brunnurinn aftengdur. Þá er búið að reyna að þvo og skola út úr kerfinu.
Sýni sem tekin voru og greind fyrir helgi sýndu að annað vatnsbólið væri orðið hreint en enn greindist mengun í hinu, þó mun minni en áður. Ný sýni voru tekin í dag og er frumniðurstaðna úr þeim að vænta um hádegi á miðvikudag. Þangað til þurfa Borgfirðingar áfram að sjóða vatnið.
Ekki er ljóst hvað varð til þess að vatnsbólin menguðust. Líklegast er talið að yfirborðsvatn hafi borist í þau í miklum vatnavöxtum. Glúmur segir engar vísbendingar hafi verið um annað en vatnið á Borgarfirði væri í góðu lagi síðustu ár þar til mengunin nú kom upp.
Hjá HEF veitum er hafin skoðun á aðgerðum til framtíðar til að fyrirbyggja mengun. Til greina kemur að gegnumlýsa neysluvatnið auk þess sem næsta vor verður farið í að bæta frágang í kringum vatnsbólin.